Foreldrar og aðrir íbúar í Laugardal eru langþreyttir á manni sem sýnt hefur af sér miður geðslega hegðun í hverfinu undanfarin misseri. Maðurinn beraði kynfæri sín fyrir framan stúlkur sem voru á æfingu í Laugardal í gærkvöldi.
Í dagbók lögreglu í morgun er þess getið að „tilkynnt hafi verið um afbrigðilega hegðun“ í hverfi 105 í gærkvöldi og málið hafi verið afgreitt á vettvangi.
Í íbúahópi Laugarneshverfis á Facebook segir kona frá því að dóttir hennar, ásamt öðrum stúlkum, sem voru við æfingar í Laugardalnum hafi lent í manninum.
„Hann áreitti þær og sýndi kynfærin sín. Hann var auðvitað farinn þegar lögreglan kom a svæðið en ég gaf skýrslu og mun kæra þetta. Vildi bara láta vita svo þið getið brýnt fyrir ykkar börnum að bregðast rétt við eins og stelpurnar gerðu og ekki tala við hann og láta fullorðna strax vita,“ segir móðirin.
Talið er að þetta sé sami maður og lögregla hafði afskipti af tvö kvöld í röð í fyrrahaust og nokkrum sinnum þar áður. Greip íþróttafélagið Þróttur til þess ráðs að loka öllum nema einum aðgangi að gervigrasvelli sínum til að reyna að koma í veg fyrir áreiti mannsins gagnvart börnum.
Ef marka má umræður í Facebook-hópnum eru foreldrar og aðrir íbúar búnir að fá nóg.
„Hvernig er ekki hægt að stoppa þennan mann?,“ spyr til dæmis einn íbúi en lögregla virðist vera ráðalaus vegna málsins. „Held að það sé lítið hægt að gera annað en brýna fyrir börnunum að tala alls ekki við hann,“ segir annar íbúi.