Margir kannast við hryllingssögur um örlög lottóvinningshafa víða um allan heim sem hafa ýmist sóað öllu fénu á innan við ári eða endað í fangelsi, á götunni, eða jafnvel í gröfinni. Fréttablaðið ræddi því við einn helsta sérfræðing í málum efnameiri einstaklinga, Kristínu Erlu Jóhannsdóttur, forstöðumann Eignastýringarþjónustu hjá Landsbankanum og spurði hana spjörunum úr.

Hvað myndir þú ráðleggja mér ef ég kæmi til þín, nýbúin að vinna 1,3 milljarða í lottói?

„Ég myndi byrja á því að óska þér til hamingju, það eru fáir svona heppnir. Svo myndi ég bjóða þér að koma til mín í viðtal og hitta tvo viðskiptastjóra,“ segir Kristín.

„Við vitum vel að fólk hefur brennt sig á því að setja öll eggin sín í eina körfu.“

Hún sérhæfir sig í eignastýringu, sem er sérhæfð fjármálaþjónusta fyrir einstaklinga, félög, fyrirtæki og hagsmunasamtök meðal annars með það að markmiði að ávaxta lausafé. Hún útskýrir að fólk, sem er í einkabankaþjónustu, geti alltaf hringt í sinn viðskiptastjóra eða varaviðskiptastjóra sem hafa umsjón með öllum þeirra bankamálum.

Hvað er einkabankaþjónusta?

„Það er þjónusta fyrir efnameiri einstaklinga. Þetta er það hár vinningur að við erum að tala um þannig einstakling,“ segir Kristín og lýsir þessu í skrefum: Ráðgjafar Eignastýringar Landsbankans myndu byrja að setjast niður með vinningshafanum og spjalla við hann og kynnast honum betur. Sérfræðingarnir hlusta á óskir, drauma og væntingar einstaklingsins og hvað hann vilji fá út úr lífinu.

Viltu nota peningana strax?

„Peningar eru ekki bara peninganna vegna, þeir eru til að láta eitthvað rætast, hvort sem það eru ferðalög, kaupa sumarhús eða annað. Kannski viltu veita börnum fjárhagslegt öryggi eða hjálp við fyrstu íbúðarkaup. Það er mikilvægt að vita þetta svo við getum farið umfram væntingar þínar við að passa upp á alla þessa hluti.“

Eftir þarfagreiningu fær einstaklingurinn svo fleiri spurningar: „Viltu nota peningana strax, til dæmis til að fara í ferðalag eða greiða skuldir – og hvað viltu nota mikið til að fjárfesta?“

„Þegar við erum að tala um svona pening er sniðugt að byrja á því að greiða skuldir en í þessu tilviki verður auðvitað mjög mikið eftir þegar það er búið. Eftir það förum við yfir þjónustuna og ræðum helstu þætti sem þarf að hafa í huga. Við könnum m.a. áhættuþol viðkomandi.“

Og hvað er áhættuþol?

„Okkur líður misvel með áhættu í fjárfestingunum okkar, sumir vilja litla áhættu en aðrir eru til í að taka meiri áhættu í von um hærri ávöxtun. Þegar við erum búin að meta þitt áhættuþol förum við yfir hvernig hægt er að dreifa eignunum og fá fram góða eignadreifingu. Við vitum vel að fólk hefur brennt sig á því að setja öll eggin sín í eina körfu,“ segir Kristín en blaðamanni dettur strax í hug dæmi um lottóvinningshafa í Bandaríkjunum, konu að nafni Lisa Arcand sem vann sem nemur rúmum 120 milljónum króna og setti allan peninginn í veitingahúsarekstur og tapaði öllu þegar staðurinn fór á hausinn.

„Ef ég fengi allt í einu svona mikinn pening, myndi ég alveg klárlega hitta ráðgjafa og jafnvel sálfræðing.“

Ekki setja öll eggin í eina körfu

Kristín segir dæmi um fólk sem missti alla peningana sína eftir að hafa fjárfest í einu félagi sem fór á hausinn. Mikilvægt sé fyrir efnamikið fólk, eins og alla aðra að fara varlega í fjárfestingum.

„Okkar mottó er: Eignadreifing er vænlega leið til árangurs. Svo er mismunandi eftir þínu áhættuþoli hversu stóran hluta eignasafnsins er best að geyma í hlutabréfum eða skuldabréfum, sem eru áhættuminni fjárfestingar. Eignasafn sem er byggt upp af mörgum ólíkum fjárfestingarkostum, innlendum og erlendum, felur í sér mun minni áhættu. Það er gott að dreifa þessu sem best.“

Svo er spurning um langtíma og skammtíma fjárfestingar. Þar séu ýmsar leiðir í boði, misjafnlega áhættumiklar. Peningar sem viðkomandi ætlar að nota innan þriggja ára væri t.d. geymdur á góðum innlánsreikningum, eða jafnvel í veltibréfum eða skammtímasjóðum að sögn Kristínar.

Ljóst er 1,3 milljarðar muni algjörlega umbreyta lífi vinningshafans og ekki eru allir sem myndu bregðast við af yfirvegun. Halldóra María Einarsdóttir hjá Íslenskri getspá hefur þegar hitt vinningshafann og af lýsingum hennar að dæma, virðist hann vera passasamur og rólegur. „Ég veit að þetta hljómar eins og ég sé að skrökva en hann var ótrúlega rólegur,“ sagði Halldóra María, í samtali við Fréttablaðið í morgun. „Hann er mjög passasamur. Enginn veit þetta, nema konan hans,“ sagði Halldóra María.

Kristín leggur áherslu á að vinningshafinn setji ekki öll eggin í eina körfu, það sama gildi um alla sem ætla sér að fjárfesta.

„Ef ég fengi allt í einu svona mikinn pening, myndi ég alveg klárlega hitta ráðgjafa og jafnvel sálfræðing. Ég mæli með því, að nýta sérfræðiþekkingu annarra. “

Kristín bendir á að eignastýring sé ekki bara þjónusta fyrir efnamikið fólk, hún sé í boði fyrir alla. „Þetta er ekki bara fyrir „ríka fólkið“. Það geta allir byrjað að spara og leita bestu leiða til að ávaxta sparnaðinn - og þá gildir auðvitað að byrja sem allra fyrst.“