Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, vakti athygli þingheimsins á annarri bylgju MeToo sem fór fyrst af stað í síðustu viku. Segir hún bylgjuna líklega komna til að vera og að stjórnvöld verði að gera betur.

„Það er hryllilegt að vita til þess að okkar annars góða samfélag sé með þennan ljóta blett sem kynferðislegt ofbeldi og áreiti er. Við þurfum að hlusta á þessar sögur. Við þurfum að læra og við þurfum einfaldlega að gera betur,“ sagði Bryndís í sérstökum umræðum um störf þingsins á Alþingi í dag.

Þá mætti segja að fyrsta bylgja MeToo, sem hófst árið 2017, hafi snúist um að vekja athygli á tíðni kynferðislegrar áreitni og ofbeldis í samfélagi en í núverandi bylgju kalla þolendur eftir því að gerendur taki ábyrgð á gjörðum sínum og að aðrir taki skýra afstöð. Það sé ekki lengur hægt að vera hlutlaus aðstandandi.

Bryndís bendir á að þrátt fyrir átak í að efla rannsóknir kynferðisbrota og hraða afgreiðslu þeirra er enn stuðningi við þolendur, og þar að auki gerendur, ábótavant. Hún velti upp spurningum um hvort íslensk réttarvörslukerfi væri þannig búið að geta tekist á við þetta verkefni.

„Hvernig aðstoðum við gerendur til að hætta að beita ofbeldi?“

Réttarkerfið hefur brugðist þolendum

Olga Margrét Cilia, þingmaður Pírata, sagði í ræðu sinni á þingfundi í dag að réttarkerfið hefði gjörsamlega brugðist þolendum kynferðisofbeldis.

„Af hverju kæra þessar konur ekki? Spurningin ætti hins vegar að vera: Af hverju treystum við okkur ekki til að kæra? [...] Spurningin ætti að vera: Af hverju hætta þessir góðu gerendur ekki bara áreita, nauðga, lítillækka og valda óafturkallanlegum skaða á lífi kvenna og kynsegin?“

Olga Margrét, þingmaður Pírata, sagði skömmina ekki þolenda, heldur gerenda.
Fréttablaðið/Ernir Eyjólfsson

Gerendi svertir eigið mannorð

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingkona Vinstri Grænna, hóf ræðu sína á að þakka þolendum kynferðisofbeldis fyrir að stíga fram og segja sögu sína. Vék hún máli sínu að dómstólum landsins og trega þolenda að leita réttar síns.

„Núna hefur skapast nokkurri umræðu um hvers vegna fólk stigið fram á samfélagsmiðlum, hvort réttlætanlegt sé að birta svo miklar upplýsingar að gerandi sé nánast persónugreindur án þess að málið rati nokkurn tímann á borð lögreglu. En á sama tíma fáum við upplýsingar um það að Landsréttur mildi dóma í 40 prósent kynferðisbrotamála sem fara fyrir dóminn. Til samanburðar eru 25 prósent dóma í ofbeldis- og fíkniefnabrotum mildaðar. Skyldi engan undra að þolendur séu tregir til að leita réttar síns ef þetta eru kveðjurnar frá dómstólum landsins?“

Að mati Bjarkeyjar er sönnunbyrðin í kynferðisbrotamálum allt of há. Segir hún nauðsynlegt að uppræta þá umræðu að þolendur sem stígi fram séu að sverta mannorð gerenda sinna. „Það eru gerendur sem sverta sitt eigið mannorð þegar þeir beita ofbeldinu.“

Bjarkey Olsen segir dómstóla landsins senda kaldar kveðjur til þolenda.
Fréttablaðið/Vilhelm

Úrræði fyrir gerendur

Í skýrslu Björns Bjarnasonar, fyrrverandi dómsmálaráðherra, sem lögð var fyrir Alþingi á löggjafarþinginu 2003-2004 má finna lista yfir meðferðir í boði fyrir gerendur.

Dæmdir kynferðisbrotamenn hafa þann kost að fara í hugræna atferlismeðferð hjá sálfræðingi, boðið er upp á einstaklingsmeðferð innan fangelsis á meðan afplánun geranda stendur yfir. Gerendur sem ekki hafa náð 18 ára aldri geta einnig farið í langtímameðferðarúrræði á meðferðarheimili á vegum Barnaverndarstofu.

í kjölfar MeToo byltingarinnar haustið 2017 skipaði Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra, starfshóp um fjölbreyttari úrræði fyrir gerendur í ofbeldismálum. Starfshópurinn taldi brýnt að hvetja til vitundarvakningar um að einstaklingar sem beiti ofbeldi þurfi einnig að fá aðstoð. „Stuðla þarf að þeirri þróun að samfélagið geti veitt einstaklingum, sem hafa beitt ofbeldi eða eru líklegir til þess, jákvæðan stuðning og draga þannig úr skaðlegri hegðun einstaklinga. Brýnt er að rannsaka hvers vegna einstaklingar beita ofbeldi, hvers vegna einstaklingar hætta að beita ofbeldi og áhrifaþætti ofbeldishegðunar og ráðast að rót vandans, ef draga á úr ofbeldi í samfélaginu.“

Skýrsluna má sjá hér.