Magnús H. Jónasson
Þriðjudagur 21. apríl 2020
22.00 GMT

Miklar vanga­veltur hafa verið um heilsu­far Kim Jong-un, leið­toga Norður-Kóreu, síðustu daga en hann hefur ekki sést opin­ber­lega síðan 12. apríl. Hann mætti ekki í opin­bera af­mælis­veislu afa síns og ei­lífðar­for­seta Norður Kóreu, Kim Il-sung, þann 15. apríl. Af­mælis­dagur Il-sung er einn stærsti há­tíðar­dagur í Norður-Kóreu og urðu margir uggandi vegna fjar­veru leið­togans en hann hefur aldrei látið sig vanta áður í af­mælis­veislu afa síns. Suður-kóreskir fjöl­miðlar hafa sagt að leið­toginn sé þungt haldinn eftir að hafa undir­gengist skurð­að­gerð á hjarta.

Sam­kvæmt BBC er erfiðari en áður að fá stað­festar fregnir frá Norður-Kóreu en landið lokaði landa­mærum sínum alveg í lok janúar vegna kórónu­veirunnar. Því hefur ekki verið hægt að stað­festa fregnir sem hafa verið í fjöl­miðlum síðustu vikur um að leið­togi landsins sé al­var­lega veikur. Skrif­stofa for­setans í Suður-Kóreu gaf hins vegar út í dag leið­toginn í norðri væri ekki al­var­lega veikur eins greint hefði verið frá undan­farna daga. Hins vegar hefur ekkert sést til hans á ríkismiðli Norður-Kóreu í um 9 daga.

Í síðasta skipti sem Kim Jong-un sást opinberlega þann 12. apríl.
Ljósmynd/EPA

Í fjar­veru leið­togans tók frétta­vefur Bloom­berg saman hverjir væru lík­legustu arf­takar Jong-un ef hann skildi falla frá eða stíga niður.

Kim fjöl­skyldan hefur verið við völd í Norður Kóreu í sjö ára­tugi. Völdin hafa farið í gegnum karl­legg fjöl­skyldunnar. Hinn 36 ára Kim Jong-un hefur ekki nefnt neinn eftir­mann enn sem komið er. Öll börn hans eru til­tölu­lega ung og allir eldri eftir­lifandi fjöl­skyldu­með­limir Kim fjöl­skyldunnar hafa ein­hvern hjalla til að klífa til að geta tekið við völdum.

Kim Yo-jong, systir Kim Jong-un er talin líklegur arftaki bróður síns.
Ljósmynd/EPA

Kim Yo-jong, systir Kim Jong-un

Kim Yo-jong, yngri systir Kim Jong-un er talin líkleg til þess að taka við að bróðir sínum. Hún hefur verið í hluta­starfi sem að­stoðar­maður Jong-un síðast liðinn ár á­samt því að vera í hluta­starfi sem tals­maður Kim fjöl­skyldunnar. Hún hefur á síðustu árum orðið einn nánasti ráð­gjafi bróður síns. Árið 2017 var Yo-jong gerður að stjórnarmeðlimi í Verkamannaflokknum í Norður-Kóreu en hún er aðeins önnur konan sem hefur gengt slíku starfi. Yo-jong er dóttir Kim Jong-Il fyrrverandi leiðtoga Norður-Kóreu. Hún hefur risið hratt innan Verkamannaflokksins en Yo-jong er fædd árið 1988.

Fyrr í þessum mánuði var hún sett í yfir­manns­stöðu innan verka­manna­flokksins. Hún er meðal annars titluð sem aðstoðarframkvæmdastjóri fyrir áróðursstarfsemi flokksins.

Kim Yo-jong í bakgrunni skiptir á skjölum við utanríkisráðherra Bandaríkjanna Mike Pompeo á sögulegum fundi milli ríkjanna.
Ljósmynd/EPA

Yo-jong var fyrsti með­limur Kim fjöl­skyldunnar til að heim­sækja Seúl höfuð­borg Suður-Kóreu þegar vetrar­ólympíu­leikarnir fóru fram árið 2018. Hún fylgdi einnig bróðir sínum á leið­toga­fund hans með Donald Trump banda­ríkja­for­seta og Xi Jin­ping for­seta Kína. Sam­kvæmt

Í frétt frá árinu 2018 á BBC var Yo-jong sögð vera hin norður-kóreska I­vanka Trump. En hún hefur starfað sem ráð­gjafi bróðir síns með svipuðum hætti og I­vanka Trum hefur gert í for­seta­tíð föður síns í Banda­ríkjunum.

Sam­kvæmt frétta­vef Bloom­berg er hins vegar með öllu ó­víst hvort ráðandi yfir­stétt verka­manna­flokksins sé reiðu­búin til að styðja við til­tölu­lega unga konu sem næsta leið­toga Norður- Kóreu.

Ó­þekktur sonur Kim Jong-un

Sam­kvæmt valda­hefð Norður-Kóreu gæti verið líklegt að litið verði framhjá Yo-jong vegna kyns hennar og að sonur Kim Jong Un tekur við völdum þegar leið­toginn fellur frá. Sam­kvæmt upp­lýsingum frá Suður-Kóreu giftist Jong-un söng­konunni Ri Sol Ju árið 2009 og er talið að þau eigi þrjú börn saman. Enginn þeirra barna hefur hins vegar komið fram í ríkis­fjöl­miðli Norður-Kóreu. Sam­kvæmt suður-kóreska dag­blaðinu DongA Ilbo er talið að elsti sonur Kim Jong-un hafi fæðst árið 2010.

Fyrr­verandi körfu­bolta­maðurinn Dennis Rodman, sem hefur verið tíður gestur í Norður-Kóreu, sagði árið 2013 að Jong-un hafi verið um það leyti með ný­fædda dóttur sína sem hét Ju Ae. Að öllum líkindum myndu ráða­menn í Verka­manna­flokknum fara með völd í landinu þangað til sonur Jong-un myndi ná á­kveðnum aldri.

Fyrrum stjarna Chicago Bulls, Dennis Rodman (t.h.), staðfesti árið 2013 að Kim Jong-un hefði eignast stúlku um það leyti.
Ljósmynd/EPA

Kim Han Sol, frændi Jong-un

Kim Han-Sol er fæddur árið 1995 og væri lík­legur arf­taki Un ef faðir hans Kim Jong Nam, elsti sonur Kim Jong Il hefði ekki lent í úti­stöðum við hálf­bróðir sinn Kim Jong Un. Jong-Nam fór í kjöl­farið í út­legð til Macau. Jong Nam er eldri hálf bróðir Un og var lengi vel talin stærsta ógn Un í leið­toga­sæti Norður-Kóreu. Hann hafði í­trekað gagn­rýnt harð­stjórn hálf­bróður síns í Norður- Kóreu.

Allar vonir Han Sol um að koma aftur til Norður-Kóreu enduðu hins vegar að öllum líkindum árið 2017 þegar faðir hans var myrtur á flug­velli í Kúala Lúm­púr. Tvær konur gengu upp að Jong Nam og sprautuðu tauga­gasi í and­litið á honum en hann lést skömmu síðar. Kín­versk yfir­völd hand­töku síðan fjölda Norður-kóreu­manna í Peking sem voru grunaðir um að ætla myrða Han Sol, sam­kvæmt Suður Kóreska blaðinu Joon­gAng Ilbo. Ekki er vitað hvar Han Sol er um þessar mundir.

Kim Han Sol á leið í skólann í Frakklandi árið 2013 er hann stundaði nám þar. Ekki er vitað hvar hann heldur sig um þessar mundir.
Ljósmynd/EPA

Kim Jong-chol, bróðir Jong-un

Kim Jong-chol, eini eftir­lifandi bróðir Jong-un, kemur einnig til greina sem arf­taki en slíkt er hins vegar talið afar ó­lík­legt. Jong-chol er sagður hafa meiri á­huga á gítar­leik en stjórn­málum. Thae Yong-ho, fyrrum hátt­settur em­bættis­maður í sendi­ráði Norður-Kóreu í Lundúnum, sem flúði til Suður-Kóreu sagði að Jong-chol hefur ekki neinn form­legan titill í Norður-Kóreu. „Hann er í raun bara mjög hæfi­leika­ríkur gítar­leikari,“ sagði Yong-ho.

Kim Jong-il er sagður hafa séð son sinn Jong-chol sem mjög kven­legan sam­kvæmt fyrrum per­sónu­legum Sushi kokk Jong-il sem skrifar opin­ber­lega undir dul­nefninu Kenji Fuji­moto. Suður-kóresk sjón­varps­stöð KBS náði myndum af Jong-Chol á Eric Clapton tón­leikum í Singa­púr árið 2011. Lítið er vitað um Jong-chol annað en hann elskar gítar­leik, stundaði nám í Sviss og er líkt og bróðir sinn mikill að­dáandi af banda­rískum körfu­bolta.

Athugasemdir