„Skjálftar sem valdið geta óþægindum í nærliggjandi byggðarlögum eins og Hvergerðingar hafa ítrekað upplifað eru aldrei ásættanlegir,“ segir bæjarráð Hveragerðis.

Bæjarráðið tók fyrir í gær erindi frá Skipulagsstofnun þar sem óskað var umsagnar vegna „mögulegrar skjálftavirkni vegna fyrirhugaðrar aukningar á massavinnslu jarðhitavökva“ hjá Orku náttúrunnar á Hellisheiði.

„Hvergerðingar hafa ávallt furðað sig á því að umhverfisáhrif Hellisheiðarvirkjunar og tengdra framkvæmda hafi ekki verið metin með skýrari hætti gagnvart Hvergerðingum en raun var á í umhverfismati virkjunarinnar á sínum tíma.

Þar var hvergi minnst á að jarðskjálftar væru fylgifiskar niðurdælingar og lítið gert úr áhrifum mengunar sem nú hefur þó verið bætt úr,“ bókar bæjarráðið um málið.

„Bæjarráð telur með öllu óásættanlegt ef að aukin skjálftavirkni muni fylgja fyrirhuguðum framkvæmdum á Hellisheiði eins og fram kemur að geti verið raunin,“ halda Hvergerðingar áfram og segja að leita verði allra leiða til að hindra að slíkt verði raunin.

„Íbúar verða ávallt að geta treyst því að hagsmunir þeirra séu settir framar öðrum hagsmunum þegar kemur að ákvörðunum og framkvæmdum á svæðinu.“