Sýningin mun standa til 9. janúar en þessa helgina veita nemendur sjálfir leiðsögn um sýningu sína. Meðal umfjöllunarefna sýningarinnar eru hverfulleiki tímans, ýmis samfélagsleg málefni og verk sem sprottin eru úr persónulegri reynslu. Túlkun útskriftarnemenda á þessum ólíku viðfangsefnum er sett fram á fjölbreyttu formi og á sýningunni getur að líta skúlptúra, vídeóverk og innsetningar auk hefðbundnari útfærslu ljósmyndaverka.

Fjölbreytt diplómanám

Um er að ræða fimm anna diplóma­nám þar sem nemendur hljóta 150 einingar í skapandi ljósmyndun. „Námið skiptist í tvær námsbrautir í skapandi ljósmyndun,“ segir Ragnheiður Sóllilja Tindsdóttir, einn útskriftarnemenda. „Námið er mjög fjölbreytilegt. Fyrsta námsbrautin einkennist aðallega af tæknilegri kennslu,“ segir hún en nemendur læra þá á mismunandi myndavélar ásamt því að læra á ljósabúnað og ljósmyndaforrit auk kennslu í myndbyggingu, formfræði, listasögu, ljósmyndasögu, hugmyndavinnu og aðferðum við sköpun.

„Á námsbraut 2 er aukin áhersla á sjálfstæða vinnu nemenda undir handleiðslu kennara. Nemendur fá möguleika á að þróa og útfæra eigin hugmyndir og verkefni. Einnig eru nemendur kynntir fyrir ýmsum hagnýtum atriðum eins og að undirbúa sýningar, standa að kynningum á samfélagsmiðlum og að sækja um styrki. Að auki eru áfram kennd kjarnafög. Í lok náms á þriðju önn námsbrautarinnar vinna nemendur viðamikið lokaverkefni og skrifa fræðilega lokaritgerð.“

Ragnheiður Sóllilja Tindsdóttir.
Mynd/Aðsend

Konur í meirihluta

Að sýningunni standa sjö konur og einn karl en það er útskriftarbekkurinn í ár. „Í öllum bekkjum skólans eru konur í meirihluta og finnst mér líklegt að svo haldi áfram,“ segir Ragnheiður Sóllilja og spurð hvort hennar tilfinning sé að hlutur kvenna í faginu sé að aukast svarar hún: „Já, án efa. Eru ekki konur í meirihluta í öllu framhaldsnámi í dag?“

Í dag verður leiðsögn bæði klukkan 14 og 16. Á morgun, sunnudag, verður leiðsögn klukkan 16. n

Með einföldum táknmyndum og stafrænni myndvinnslutækni fæst Hildur Örlygsdóttir við hugmyndir um kynjatvíhyggjuna.
Mynd/Hildur Örlygsdóttir
Helgireitur: Viktor Steinar reynir að öðlast dýpri skilning á eigin hliðar­sjálfum í verkinu Helgireitur sem samanstendur af ljósmyndum og ýmsum hlutum.
Mynd/Viktor Steinar Þorvaldsson