Hver ein­stak­lingur hér á landi sóar að meðal­tali 90 kílóum af mat á hverju ári. Þetta er sam­kvæmt niður­stöðum rann­sóknar Um­hverfis­stofnunar á um­fangi matar­sóunar á Ís­landi sem fram­kvæmd var á síðasta ári. 90 heimili tóku þátt og 80 fyrir­tæki.

Í frétt á vef Um­hverfis­stofnunar um niður­stöðurnar kemur fram að matar­sóun ís­lenskra heimila sé sam­bæri­leg því sem þekkist í öðrum Evrópu­löndum.

Í niður­stöðunum kemur fram að ís­lensk heimili hafi hent að meðal­tali um 20 kílóum af nýtan­legum mat á ári, 25 kílóum af ó­nýtan­legum matar­af­göngum, 40 lítrum af drykkjum og 5 kílóum af matar­olíu og fitu á hvern fjöl­skyldu­með­lim.

„Með öðrum orðum er á­ætlað að ís­lensk heimili hendi sam­tals 7.152 tonnum af nýtan­legum mat á ári hverju, um 9.130 tonnum af ó­nýtan­legum matar­af­göngum, 14.670 tonnum af drykkjum og 1.840 tonnum af matar­olíu og fitu. Sam­bæri­leg rann­sókn var fram­kvæmd af Um­hverfis­stofnun árið 2016 og fannst ekki töl­fræði­lega mark­tækur munur á sóun milli tíma­bilanna tveggja,“ segir í fréttinni.

Niður­stöður fyrir­tækja­hluta rann­sóknarinnar benda til að ríf­lega 22 kílóum af nýtan­legum mat, 3,6 kílóum af ó­nýtan­legum mat, 14,6 lítrum af drykkjum og 1,6 kílóum af olíu og fitu sé sóað á hvern íbúa ár­lega.

Tekið er fram að dræm þátt­taka fram­leiðslu­fyrir­tækja í rann­sókninni geri það að verkum að niður­stöðurnar þar endur­spegla að­eins neyslu­hlekk mat­væla­keðjunnar, það er heild- og smá­sölu, veitinga­sölu og spítala og hjúkrunar­heimili.

Hægt er að kynna sér niður­stöðurnar betur á vef Um­hverfis­stofnunar.