Á dögunum var skipaður nýr sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi. Donald Trump Bandaríkjaforseti tilnefndi hann í ágúst á síðasta ári, og öldungardeild Bandaríkjaþings staðfesti skipunina í liðinni viku. En hver er þessi nýi sendiherra?

Jeffrey Ross Gunther er húðlæknir að mennt, og hefur starfað sem slíkur undanfarin 25 ár. Hann hefur rekið húðlæknastofur og veitt heilbrigðisþjónustu í dreifbýlum svæðum í vestanverðum Bandaríkjunum, þar sem aðgengi að heilbrigðisþjónustu hefur sögulega verið mjög slæmt. Hefur hann rekið læknastofur í fjórum fylkjum.

Gunther mun koma í stað Robert C. Barber, að jafnaði kallaður Bob, sem lét af embætti í janúar 2017, um þann mund sem Donald Trump sór embættiseið. Barber var skipaður af Barack Obama, og tíðkast það að sendiherrar eru kallaðir heim við forsetaskipti.

Gunther hefur aldrei sinnt opinberu embætti, en hefur verið virkur í starfi Repúblikanaflokksins. Hefur hann m.a. sinnt ýmsum störfum fyrir svokallaða gyðingablokk Repúblikanaflokksins.

Gjafmildur bakhjarl

Gunther virðist hafa hagnast vel af störfum sínum sem heilbrigðisstarfsmaður og gjafmildur af auð sínum, en hann styrkti forsetaframboð Donalds Trump, og aðra starfsemi Repúblikanaflokksins í tengslum við framboðið, um samtals 300 þúsund dollara, eða um 37 milljónir króna. Þetta kemur fram í umfjöllun NBC frá síðasta mánuði, og í frétt Antelope Valley Times, sem er nokkurskonar héraðsmiðill í heimafylki Gunther.

Í umfjöllun NBC, sem fjallar um að margir þeirra sem styrktu framboð Trump um háar fjárhæðir hafa verið launaðir með sendiherrastöðu, kemur fram að Gunther hafi gefið 100 þúsund dollara til svokallaðs Victory PAC Donalds Trump, en það er félag sem ætlað er að kaupa auglýsingar fyrir hönd framboðsins. Önnur 100 þúsund gaf hann til svokallaðar embættisskiptanefndar (e. inaugurational committee) forsetans.

Í Antelope Valley Times kemur svo fram að til viðbótar hafi Gunther styrkt ýmis svæðisfélög Repúblikana um samtals 58.563 Bandaríkjadali, 33.400 til Repúblikanaflokksins á landsvísu og loks gaf hann 5.400 dali til forsetaframboðsins sjálfs, en það er hámarkið sem gefa má.

Í heildina reiknast því þau framlög sem vitað er að Gunther gaf til Repúblíkanaflokksins og framboðs Donalds Trump 297.363 Bandaríkjadollara eða um 36,7 milljónir króna.

Fjöltyngdur „umhverfissinni“

Eins og gefur að skilja talar Gunther ensku, en því tilviðbótar talar hann spænsku, frönsku og hollensku. Eiginkona hans heitin var hollenskur innflytjandi í Bandaríkjunum, en hún lést eftir baráttu við krabbamein árið 2016. Með henni átti hann tvö börn, tvíburana Simon og Sophie.

Í bréfi til utanríkismálanefndar öldungadeildarinnar fjallar Gunther um tilnefningu sína, og virðist mjög upp með sér yfir henni. Þar kemur m.a. fram að hann hafi aldrei komið til Íslands. „Þrátt fyrir það er mér ljóst af Ísland er land með gríðarlega sögu, fegurð, metnað og afrek. Á Íslandi býr stolt fólk og landið er mótað af umhverfinu.

Umhverfið er mér sérstaklega mikilvægt, líkt og svo mörgum okkar. Ég hef varið mínum starfsferli í að berjast gegn skaðlegum áhrifum sólarinnar fyrir hönd minna sjúklinga. Ég hlakka til, hljóti ég skipunina, að halda áfram samtali við íslensk stjórnvöld um umhverfið okkar og samvinnu okkar í framtíðinni,“ er meðal þess sem sendiherrann nýskipaði skrifar í bréfinu.