Fréttir

Hver einasti stafur meitlaður í stein

Ljóðskáldið Þorsteinn Jónsson frá Hamri verður til moldar borinn í dag. Fjölmargir minnast hans í Morgunblaðinu í dag. Hrafn Jökulsson kveður Þorstein á Facebook þar sem hann segir meðal annars: "Og ég held hann hafi aldrei skrifað staf, sem ekki verðskuldaði að vera meitlaður í stein.“

Ljóðskáldið ástsæla Þorsteinn frá Hamri verður borinn til grafar í dag. Fréttablaðið/Anton Brink

Þorsteinn Jónsson frá Hamri fæddist 15. mars 1938 á Hamri í Þverárhlíð. Hann andaðist á heimili sínu í Reykjavík 28. janúar 2018. Útför hans fer fram frá Dómkirkjunni í Reykjavík í dag klukkan 15.

Séra Þórir Jökull Þorsteinsson, sonur Þorsteins, minnist föður síns í Morgunblaðinu í dag og skrifar meðal annars: „Pabbi vildi að fólk færi varlega með orð og taldi öllum gagnlegt að huga að inntaki þeirra. Hann unni bókinni. Engan hef ég séð fara höndum um bækur af sömu nærgætni og hann. Hnignandi tök Íslendinga á eigin tungu ollu honum hugarangri og miður féll honum sú afstaða fólks að hið liðna skipti ekki máli.

Hann var jarðbundinn maður en á hljóðlátan hátt var þó eins og honum fylgdi vitund um önnur óræð svið. Allmörg ljóða hans lýsa trúarlegu innsæi eða spurn andspænis leyndardómum tilverunnar.“

Bragi Kristjónsson fornbókasali kveður fallinn félaga og segir „drengskapur“ vera það orð sem kemur í hugann þegar Þorsteins er minnst.

„Góðlyndi hans og margháttuð hlýja vermdi sál viðmælenda hans. Þannig mun hans verða minnzt, þegar við - gamlir vinir hans erum löngu dauðir og steingleymdir.“

Vernharður Linnet minnist sósíalistans sem fór sínar eigin leiðir: „Þorsteinn kenndi til í stormum sinnar tíðar. Hann vann oft með okkur í Fylkingunni og var hernámsandstæðingur af lífi og sál. Hann mótmælti við bandaríska sendiráðið í Víetnamstríðinu en ánetjaðist aldrei kenningakerfum. Hann var sósíalistinn sem fór sínar eigin leiðir og lét réttlætiskennd sína og mannúð ráða för.“

Tryggvi Ólafsson, listmálari og náin vinur Þorsteins, kveður vitran vin: „Þá er hann farinn. Vinurinn góði og spaki! Það er ekki á hverjum degi sem maður kynnist vitringi, sem svo að auki á ríka listræna gáfu. Liðlega tvo tugi ljóðabóka lét hann frá sér og alltaf var jafn mikil nautn að sjá hvernig hann gat formað hin ýmsu fyrirbrigði samtímans í orðum en einnig sögu þessarar þjóðar.“ Tryggvi segir margs að minnast frá „sjeneverárunum“ eins og þeir félagar kölluðu árin um 1960. „Hvernig ætti að fullþakka framlag þessa manns? Fari skáldið okkar góða í friði.“

Kristín Helga Gunnarsdóttir, formaður Rithöfundasambands Íslands, vottar fjölskyldu Þorsteins samúð fyrir hönd Rithöfundasambandsins um leið og hún minnist fallins heiðursfélaga í sambandinu:

„Þorsteinn frá Hamri hverfur hljóðlega út í ljóðheiminn eilífa. Í sorg og söknuði finnum við hin svo þunglega hve stundin er hverful og stutt. En um leið gefum við dýpt hennar gaum í gegnum skilningarvit skáldsins. Við skynjum hve listsköpun Þorsteins stækkar heiminn og skilgreinir veröldina - hvernig verkin hans taka utan um hnattlífið og mennskuna í þéttu faðmlagi ljóða og orða.

Þannig var Þorsteinn líka sem manneskja og þess vegna er hann svo einstök, ógleymanleg og hljómmikil rödd skáldskaparins - af því að hann bjó yfir manngæsku, mildi og næmi fyrir fólki og tungumáli sem er algilt og sérstætt í senn.“

 

Páll Valsson, bókmenntafræðingur og útgefandi, segir frá sameiginlegu dálæti hans og Þorsteins á listaskáldinu góða, Jónasi Hallgrímssyni, og þeirri gæfu að hafa átt Þorstein að vini:

Samvizka -

sál mín herðir

spjótalög á spegil

„Svona yrkja stórskáld, svona orti Þorsteinn frá Hamri. Það var mikil gæfa að fá að vera samtíða slíku höfuðskáldi og eiga hann að vini. Þorsteinn var ekki bara frábært skáld, heldur líka óvenjulegt eintak af manni; stóískur ævinlega hvað sem á gekk, ávallt reiðubúinn að leggja gott til mála og einn albesti yfirlesari landsins um langt skeið.“

Páll heldur síðan áfram og horfir aftur til 19. aldar: „Við áttum sameiginlega ást á 19. öldinni, skáldskap og mannlífi, ekki síst Jónasi Hallgrímssyni sem var okkar maður. Þorsteinn talaði um Jónas og Sigga Breiðfjörð eins og þar færu nánir vinir og samtímamenn, af nærfærni og skilningi, og á okkar síðasta fundi, aðeins skömmu áður en hann lést, var honum hugstæð sú kaldhæðni örlaganna að þessi tvö skáld skyldu fara inn í söguna sem óvinir og andstæður - svo mjög sem þeir áttu margt sameiginlegt. Það segir svo sína sögu um Þorstein að á þessum sama fundi var hann umkringdur nýjustu ljóðabókum ungskálda. Þorsteinn fylgdist grannt með og var örlátur á hrós fyrir það sem honum fannst vel gert. Má nærri geta hversu mikilvægt það var þeim sem voru að þreifa sig áfram að fá klapp á bakið frá Þorsteini frá Hamri.“

 

Hrafn Jökulsson kveður vin sinn, skáldsnillingin yndislega, á Facebook með einu ljóða Þorsteins:

„Það voru forréttindi að eiga hann að vini, fá að njóta visku hans, þekkingar, sagnasnilldar og kímni. Engan mann hef ég þekkt sem hafði þægilegri nærveru. Og ég held hann hafi aldrei skrifað staf, sem ekki verðskuldaði að vera meitlaður í stein.“

 

LJÓÐ

Þú sem hefur ferðast um fjallið í brjósti mínu

og veist allar leiðir þess,

segðu það engum.

 

Þú sem veist allt jarðeðli þess,

hvað það er myrkt og vandratað ókunnugum,

hvernig það bifast við minnstu snertingu,

segðu það engum.

 

Þú sem veist alla sköpun þess,

hvað það er torsótt í umferð daganna,

örðugt og þungfært hestum stálguðsins,

hvernig það grefur háreysti lýðsins

í svartan sand,

segðu það engum.

 

Þú sem veist hugarfar mannanna,

og hvernig þeir myndu bregðast við,

ef vegirnir opnuðust.

Þú sem veist alla dóma þess,

segðu það engum.

 

Segðu það engum.

 

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing

Tengdar fréttir

Bandaríkin

Tólf ára blaða­kona lét lög­reglu­mann heyra það

Björgun

Þyrlan sótti göngu­menn upp á Tungna­fells­jökul

Hvalveiðar

Fjallað um fyrir­hugaðar hval­veiðar í er­lendum miðlum

Auglýsing

Nýjast

Plok­kver­tíðin að hefjast hjá Atla

Segja RÚV upp­hefja eigin verk á kostnað fag­manna

Leit lokið í dag: „Mikill sam­hugur á Ír­landi“

Spennan magnast enn í Venesúela

Segir það sann­gjarna kröfu að fólk geti lifað á launum sínum

Þing­kona gagn­rýnd fyrir yfir­læti í garð barna

Auglýsing