„Það er erfitt að segja til um hvort eldgosið er í andaslitrunum, það er eins og enn hafi dregið úr því, en á móti kemur að gígbrúnir hafa hækkað verulega og við sjáum ekki eins vel og áður. Það getur brugðið til beggja vona með framhaldið,“ sagði Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur í samtali við Fréttablaðið í gærkvöld.

Órói við eldgosasvæðið í Meradölum hafði þá dottið niður um tíma. Vísbendingar voru um að gosið væri að lognast út af.

„Það gæti hver orðið síðastur að sjá þetta gos. Ef fólk hefur áhuga á að sjá það er eins gott að drífa sig,“ segir Þorvaldur.

Í dag verður unnið úr sýnum sem tekin voru í gær til að hægt sé að sjá hvort hraunflæði fer minnkandi.
Ekki er þó spurning hvort aftur gýs á Reykjanesi, heldur aðeins hvar og hvenær að sögn Þorvaldar.