Eiríkur Bergmann, prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Bifröst segir að Liz Truss sé hefðbundnari leiðtogi Íhaldsflokksins en forverar hennar og flokkurinn sé að nálgast uppruna sinn. Hún mun hins vegar þurfa að sameina flokkinn aftur eftir óvenjulega illskeytta baráttu um forystusætið.
„Þetta er bara áframhald á ákveðnu uppgjöri sem hefur verið í gangi í Bretlandi í langan tíma. Fyrst er Theresa May sem fær þetta í fangið, svo kemur Boris Johsnon sem er mjög sérstök fígúra sem hefði undir öllum venjulegum kringumstæðum aldrei orðið formaður Íhaldsflokksins og forsætisráðherra. Hann hrökklast frá og Liz Truss, sem er miklu hefðbundnari forystumaður fyrir Íhaldsflokkinn tekur við. Þannig að einhverju leyti er Íhaldsflokkurinn meira að nálgast sinn uppruna og sinni eðlilegu lögun,“ segir Eiríkur.
„Hennar hveitibrauðsdagar verða stuttir“
Hann heldur að það verði erfitt fyrir Truss að standa við öll kosningaloforð sín á þessum tímapunkti.
„Hverju hún nær fram af því sem hún hefur verið að lofa undanfarið, eins og fara fram á skattalækkanir á sama tíma og Bretar eru að berjast við fordæmalausa verðbólgu, það er erfitt að sjá það fyrir sér að hún nái þessum markmiðum sínum í gegn til skamms tíma. Síðan er það þannig að Bretar búa kannski við eina mestu áskorunina í vestrænu efnahagslífi núna, sem að fellst meðal annars í verðbólgu gjaldmiðilsins, framsetning efnahagslífsins og svo framvegis,“ segir Eiríkur.
Hann telur að það séu erfiðir tímar fram undan fyrir Truss og ríkisstjórn hennar.
„Það getur reynst örðugt fyrir nýjan forsætisráðherra að setja sitt mark og ná að glansa inn í einhverja hveitibrauðsdaga. Hennar hveitibrauðsdagar verða stuttir og munu ganga út á að endurstilla flokkinn fyrir næstu kosningar. Þá fyrst reynir á hana því það er erfitt að verða forsætisráðherra án þess að hafa verið kjörinn til embættisins,“ segir Eiríkur og bætir við að það verði ekki auðvelt fyrir Truss að sameina flokkinn, en hún gæti vel gert það.
Afleiðingar Brexit að koma fram núna
Margir spáðu því að það myndi verða Truss að falli að styðja við fyrrum formann flokksins, Boris Johnson eins og hún gerði, en annað kom á daginn eftir kosningarnar.
„Truss stóð þétt við bakið á Boris Johnson, en talið er að það hafi hjálpað henni í kosningunum. Margir spáðu því að það myndi hafa komið henni í koll, sem það gerði ekki,“ segir Eiríkur
Eiríkur segir að afleiðingar Brexit séu fyrst núna að koma í ljós.
„Þær afleiðingar bætast ofan á almenna erfiðleika í alþjóðlegu efnahagslífi í kjölfarið á bæði faraldrinum og styrjöldinni. Þetta er svona margþættur vandi sem hún er að takast á við. En hún nýtur þess hins vegar að Verkamannaflokkurinn veit ekkert í hvorn fótinn hann á að stíga og hefur ekki gert það um langa tíð. Maður hefur ekki séð að Verkamannaflokkurinn hafi náð á henni neinum tökum og ekkert sem bendir til þess hvar þeir gætu sótt að henni. Þannig á meðan Verkamannaflokkurinn er í þessari eyðimerkurgöngu sinni þá nýtur hún þess á meðan,“ segir Eiríkur.
„Það er auðvitað líka eftirtektarvert að Truss er þriðji kvenkyns forsætisráðherra Bretlands og þriðji kvenkyns formaður Íhaldsflokksins, á meðan Verkamannaflokkurinn hefur aldrei boðið fram konu í forystusæti,“ segir Eiríkur.