Taktu myndina úr ferilskránni, þá ertu líklegri til að vera boðaður í viðtal, skrifar Friðrik Agni Árnason í grein sem hann birti á dögunum á vísi.is

Vinkona hans hafi litið yfir ferilskrána hans yfir kaffibolla í Stokkhólmi og hvatt hann til að skipta um mynd. Hann spyr sig hvort hann hafi verð svona óaðlaðandi á myndinni, en svo var ekki.

„Ég var kannski bara aðeins of brúnn,“ skrifar Friðrik.

„Þú ert með svo gott íslenskt nafn. Myndin mun bara rugla fólk. Treystu mér. Taktu myndina út ef þú vilt fá meiri séns á viðtali,” segir vinkonan við hann sem er fædd og uppalin í Svíþjóð. Foreldrar hennar eru frá Íran og ber hún þess merkis. Hún er brún með kolsvart hár og gullfalleg skrifar Friðrik.

„Eftir að 40 umsóknir með mynd af mér í ferilskránni höfðu farið um víðan völl án árangurs ákvað ég að hlusta á vinkonu mína og prófa að henda myndinni út. Í þessum 40 umsóknum sem ég hafði sent var ég meira að segja búinn að lækka kröfur mínar og vonir. Ég var farinn að sækja um störf sem ég vissi að ég væri líklega of hæfur í.-

Viti menn. Fyrsta umsóknin sem ég sendi án myndar fékk viðbrögð. Ég var boðaður í viðtal.

Og þetta var fyrir starf sem ég var fullkomlega hæfur í og hentaði mínum hæfileikum, reynslu og menntun.“

Hann hugsaði með sér hvort þetta hafi verið tilviljun. En honum hafi brugðið í fyrstu. Friðrik hafi búið í Svíþjóð í um það bil tíu ár og áður í Ástralíu og Ítalíu.

Hvað er norm?

„Þegar ég lít til baka þá sé ég að þetta sem gerðist í Svíþjóð er ekki endilega eitthvað sem heitir rasismi heldur ómeðvituð hlutdrægni. Og við erum örugglega flest með hana, ómeðvitað og gagnvart ólíkum hlutum í lífinu.

Við ætlum okkur ekkert að dæma fólk út frá staðlaðri hugmyndafræði um týpugerðir. En við gerum það þó samt. Við sjáum fyrir okkur að fyrir þetta hlutverk eða þetta starf væri best ef týpan væri svona en ekki svona. Og oft er það út frá einhverju normi sem er auðvitað ekki til.

En það er einmitt margra ára norm uppeldi sem hefur alið af sér ómeðvitaða hlutdrægni.

Við spottum frávik frá þessu svokallaða normi og nennum ekki endilega að hafa fyrir því að gefa þessu fráviki sama séns og hinu venjulega.“

Hægt er að lesa grein Friðriks í heild sinni á vísi.is