Þann 22. maí næstkomandi verður í fyrsta sinn á Íslandi haldinn Dýradagurinn. Þar verður líffræðilegum fjölbreytileika fagnað í dýraskrúðgöngu og á öðrum viðburðum. Meðal skipuleggjenda er hinn tvítugi Ísak Ólafsson.

„Þetta byrjaði allt árið 2016 þegar Jane Goodall kom til Íslands en ég var ekki á landinu. Jane Goodall er mín fyrirmynd þannig ég sendi fyrirspurn á Rannveigu Magnúsdóttir sem ég vissi að væri í stýrihóp að skipuleggja viðburði í kringum heimsóknina,“ segir Ísak í samtali við Fréttablaðið.

Hann segir að síðan hafi lítið gerst fyrr en haustið eftir og þá hafi hann farið á fund með Rannveigu og öðrum sem stefndu á að stofna hér á Íslandi Roots &Shoots hóp.

Roots & Shoots eru ungmennasamtök sem stofnuð voru árið 1991 af Dr. Jane Goodall. Ísak segir að markmið þeirra sé að stuðla að virðingu og samúð með öllum lífverum, menningu og skoðunum og að gefa börnum og ungu fólki innblástur til að grípa til aðgerða til að gera heiminn betri fyrir fólk, önnur dýr og umhverfið.

Hann segir að hann hafi vitað af samtökunum í nokkurn tíma og hafi svo borist það til eyrna að Rannveig Magnúsdóttir, sérfræðingur hjá Landvernd, hafi ætlað að stofna slík samtök á íslandi. Hann hafi þá sent henni skilaboð þess efnis að hann hefði áhuga á að vera með.

Fékk hugmyndina frá tveimur stúlkum frá Taívan og Argentínu

Samstarf hans og Rannveigar varð síðan til þess að hún tilnefndi Ísak til að fara á fund Roots & Shoots fyrir hönd Íslands í Windsor kastala sumarið 2018. Þar stóð honum til boða að hitta og verja heilli viku með Jane Goodall og hópi af ungu fólki, alls staðar að úr heiminum.

„Þau höfðu öll sama brennandi áhuga á umhverfismálum og ég. Þessi hópur var valinn til að vinna saman að og skipuleggja framtíðarplön og verkefni samtakanna. Á fundinum áttum við að finna verkefni sem við gætum sett í gang þegar við kæmum heim. Í fyrstu hafði ég ekki hugmynd um hvað gæti verið sniðugt að gera á Íslandi en svo sá ég kynningar frá hinum krökkunum og ein þeirra náði athygli minni,“ segir Ísak.

Hann segir að kynningin hafi verið frá ungum stúlkum frá Taívan og Argentínu um viðburð sem þau halda árlega og kallast „Animal parade“ og er einskonar dýraskrúðganga.

„Viðburðurinn er haldinn til að gefa ungu fólki og krökkum tækifæri til að læra um og vekja athygli á mikilvægum málefnum eins og lífbreytileika, friði og ólöglegri sölu villtra dýra. Þetta er gert með almennri fræðslu og í gegnum skapandi vinnu barna og ungs fólks. Hápunkturinn er svo litrík og skrautleg skrúðganga þar sem allir mæta með grímur eða í búningum sem unnir eru úr endurunnum efniviði,“ segir Ísak og bætir við:

„Ég vissi ekki alveg hvernig ég færi að því að setja svona viðburð í gang og var því hræddur um að ég gæti ekki gert þetta. Þetta væri of stórt verkefni fyrir 19 ára strák, en það voru allir á fundinum svo spenntir, þar á meðal Jane Goodall sjálf, að ég varð einhvern veginn að láta þessa dýraskrúðgöngu á Íslandi verða að veruleika.“

Ísak útilokar ekki að gæludýr verði velkomin í dýraskrúðgönguna.
Fréttablaðið/AFP

Alþjóðlegur dagur líffræðilegrar fjölbreytni

Hann segir að eftir að hann kom heim af fundinum hafi hann því haft samband við Rannveigu og þau hafi saman byrjað að vinna að því að koma henni í framkvæmd.

„Skrúðgangan eða Dýradagurinn, eins og við höfum ákveðið að kalla viðburðinn, verður haldinn í fyrsta skiptið á Íslandi þann 22. maí næstkomandi, sem einnig er alþjóðlegur dagur líffræðilegrar fjölbreytni. Allskonar viðburðir tengdir göngunni verða haldnir í vikunum á undan,“ segir Ísak.

Hann segir að Dýradagurinn hafi fljótt vaxið frá því að vera hugmynd yfir í að vera samstarfsverkefni fjölmarga aðila. Þar á meðal eru Landvernd, Norræna húsið, Reykjavíkurborg, Grasagarðurinn, Húsdýragarðurinn, Fuglavernd, Myndlistaskóli Íslands og Barnamenningarhátíð.

„Þemað í ár er málefni hafsins, sem er Íslendingum mjög kært. Börnin sem taka þátt munu læra um plastmengun í hafi, loftslagsbreytingar og lífbreytileika í gegnum viðburðina sem verða haldnir,“ segir Ísak.

Stefnir á dýralækningar

Ísak er nýútskrifaður úr Kvennaskólanum í Reykjavík og er nú við nám í Lýðháskóla í Noregi. Síðar stefnir hann á dýralækningaháskóla.

„Ég ákvað að byrja á því að fara í lýðháskólann til að koma mér inn í tungumálið og ná að undirbúa mig. Þá er það ekki eins mikið stökk að fara í háskólann,“ segir Ísak.

Ísak segir að hann hafi fengið mikið dýrauppeldi og hafi eignast sitt fyrsta gæludýr við sjö ára aldur. Auk þess er faðir hans menntaður fuglafræðingur.

„Ég hef verið að stússast með honum að merkja fugla og svoleiðis. Þannig þetta hefur alltaf verið mjög mikið í kringum mig. Ég man eiginlega ekki eftir öðru en að ég hafi elskað að vera í náttúrunni og í kringum dýr. Þetta er svo orðið miklu stærra eftir því sem ég hef getað gert meira,“ segir Ísak.

Spurður hvort hann eigi sér uppáhalds dýr, segir Ísak:

„Það er mjög erfið spurning, það er svo mikið í boði. Ég er mikið fyrir villt dýr og stefni að því að vinna í umhverfisvernd og þá í þágu villtra dýra. Það er aðalástríða mín,“ segir Ísak.

Spurður hvort megi taka gæludýrin með í gönguna segir Ísak að það hafi ekki verið rætt sérstaklega en það væri skemmtilegt og velkomið.

„Erlendis hefur það verið þannig að börn búa til búninga úr endurvinnanlegum efnum og svo klæðast þau búningunum. Þema ársins í ár er hafið þannig þá gætu krakkarnir verið búin að búa til búninga úr fiskum, fuglum eða hvölum,“ segir Ísak.

Gangan fer fram þann 22. maí kl. 14:30. Gengið verður frá Laugarnesskóla yfir í Grasagarðinn þar sem við tekur stutt dagskrá kl. 15:00.

„Þessi viðburður er tilvalið tækifæri fyrir alla og þá sérstaklega krakka og ungt fólk til að láta rödd sína heyrast og sýna fólki og yfirvöldum að unga kynslóðin hefur áhugann og viljann til að gera eitthvað í umhverfismálum,“ segir Ísak að lokum.

Öllum skólum er boðið að taka þátt og nánari upplýsingar um Dýradaginn má finna á landvernd.is.