Í dag er spá austanátt víða á bilinu 8-15 metrar á sekúndu og rigningu, talsverð úrkoma verður austanlands og er hiti á bilinu 3 til 11 stig. Hlýjast syðst á landinu. Norðaustan 18-23 á Vestfjörðum með slyddu og hita 0 til 3 stig. Í kvöld og nótt má búast við að það fari að hvessa.

Fram kemur í hugleiðingum veðurfræðings að mildur loftmassi hafi náð yfir landið og megi búast við austan strekkingi með rigningu. Undantekningin á þessari stöðu eru Vestfirðir, þar er útlit fyrir norðaustan hvassviðri eða stormi og svalara veður, úrkoman þar verður því líklega slyddukennd.

Í kvöld og nótt bætir síðan í vind heilt yfir á landinu og á morgun verður norðaustan hvassviðri eða stormur nokkuð víða. Útlit er fyrir rigningu eða slyddu norðan- og austanlands, en snjókoma á þeim slóðum seinnipartinn því það kólnar smám saman með norðanáttinni. Yfirleitt þurrt veður sunnan heiða. Taka má fram að stór hluti höfuðborgarsvæðisins verður væntanlega í skjóli á morgun.

Á miðvikudag er síðan norðanátt í kortunum með björtu veðri sunnan- og vestanlands, en dálítil él norðaustantil. Það lægir fljótlega á vestanverðu landinu, en stíf norðanáttin heldur velli austanlands fram undir kvöld.

Á fimmtudag er síðan útlit fyrir rólegan vind um allt land og ekki er búist við úrkomu að neinu ráði.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á þriðjudag:
Norðaustan 15-23 m/s. Rigning eða slydda norðan- og austanlands, en snjókoma á þeim slóðum seinnipartinn. Þurrt veður sunnan heiða. Hiti 2 til 9 stig framan af degi, mildast syðst, en kólnar síðdegis.

Á miðvikudag:
Norðan 8-18, hvassast með austurströndinni. Léttskýjað sunnan- og vestanlands, en dálítil él norðaustantil. Lægir á vestanverðu landinu eftir hádegi, lægir einnig og styttir upp austanlands um kvöldið. Hiti kringum frostmark, en frost 1 til 7 stig um kvöldið.

Á fimmtudag:
Breytileg átt, víða 3-8. Þurrt á landinu og bjart með köflum. Frost 0 til 5 stig yfir daginn, en frostlaust með suður- og vesturströndinni.

Á föstudag:
Vaxandi suðaustanátt. Fer að rigna sunnan- og vestanlands, og hiti 2 til 7 stig. Þurrt norðaustantil á landinu og hiti kringum frostmark.

Á laugardag (fyrsti vetrardagur):
Suðlæg átt og víða rigning. Hiti 3 til 8 stig.

Á sunnudag:
Suðlæg átt og dálitlir skúrir, en yfirleitt þurrt á Norður- og Austurlandi. Hiti 1 til 6 stig.

Fylgjast má nánar með veðri á vef Veðurstofu Íslands.