Veðurstofan spáir norðaustan og norðan 10-15 m/s, en hvassara í vindstrengjum suðaustanlands og á stöku stað á Vesturlandi. Það verður bjart að mestu sunnan heiða, en dálítil væta annars staðar. Talsverð rigning verður á Austurlandi seinnipartinn og þar til í fyrramálið. Það fer svo að lægja seint á morgun. Hiti verður 6 til 11 stig um landið norðanvert, en 11 til 16 stig syðra yfir daginn.

Gular viðvaranir í gildi

Veðurstofan varar við hvassviðrinu í dag. Það verða hviður sem fara upp í 25-30 m/s á Kjalarnesi, undir Hafnarfjalli og á sunnanverðu Snæfellsnesi. Í Suðursveit hvessir líka og þar fer vindur upp í allt að 35 m/s þvert á veginn, sérstaklega frá miðjum degi og fram á nótt.

Gul viðvörun er í gildi vegna veðursins á Faxaflóa, Breiðafirði, Austfjörðum og Suðausturlandi, svo ferðalangar ættu að hafa varann á og kynna sér aðstæður.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á mánudag:
Breytileg átt 3-8 m/s, en norðan 8-13 m/s með austurströndinni fram eftir degi. Skýjað með köflum en skýjað austanlands og skúrir syðst á landinu. Hiti yfir daginn frá 5 stigum á Austurlandi, upp í 15 stig um landið suðvestanvert.

Á þriðjudag:
Suðaustan 3-10 m/s en 8-13 m/s og rigning með suðurströndinni en annars bjartviðri. Hiti 8 til 15 stig, hlýjast á Vestur- og Norðvesturlandi.

Á miðvikudag:
Austan 3-10 m/s en 10-15 m/s með suðurströndinni. Rigning sunnanlands. Hiti 10 til 17 stig, hlýjast norðanlands.

Á fimmtudag:
Suðaustan 3-10 m/s og dálítil væta með köflum sunnan- og vestanlands. Hiti 10 til 18 stig.

Á föstudag:
Austanlæg átt og rigning sunnanlands og síðar um um mest allt land. Hiti 10 til 15 stig.