Í dag stefnir í allhvassa eða hvassa norðaustan- og austanátt, 13-20 m/s, en hægari vind austanlands. Það verður snjókoma eða él um landið norðanvert og slydda eða snjókoma sunnanlands, en þurrt að mestu við Faxaflóa og stór hluti höfuðborgarsvæðisins verður í þokkalegu skjóli. Hiti verður í kringum frostmark.

Á morgun er von á minnkandi norðlægri átt, 8-13 m/s, og dálitlum éljum, en það verður þurrt sunnantil á landinu. Það verður vægt frost en það lægir undir kvöld og þá kólnar.

Á sunnudag er gert ráð fyrir stífri vestan- og suðvestanátt með éljagangi, en það á að vera þurrt og bjart veður um landið austanvert.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á laugardag:

Norðlæg átt 5-13 m/s og él, en þurrt að kalla sunnanlands. Frost 0 til 4 stig. Lægir um kvöldið og kólnar.

Á sunnudag:

Suðvestan- og vestanátt, víða 10-15 m/s og él, en bjartviðri um landið austanvert. Frost 0 til 6 stig.

Á mánudag:

Suðlæg átt 5-10 m/s. Snjókoma á Suður- og Vesturlandi, en bjart veður norðaustantil á landinu. Hiti breytist lítið.

Á þriðjudag og miðvikudag:

Austlæg eða breytileg átt og líkur á éljum eða snjókomu í flestum landshlutum. Áfram frost um allt land.

Á fimmtudag:

Austan og norðaustanátt með snjókomu eða éljum, en þurrt suðvestanlands. Frost 1 til 6 stig.

Færð og ástand vega

Yfirlit:

Vetrarfærð er í flestum landshlutum en greiðfært er frá Reyðarfirði að Skaftafelli. Enn eru nokkrir fjallvegir ófærir á Vestfjörðum og slæmt ferðaveður.

Vestfirðir:

Margir fjallvegir ófærir og víða stórhríð en þó er fært milli þéttbýlisstaða á sunnanverðum fjörðunum.

Ófært er á Gemlufallsheiði og beðið með mokstur þar til birtir.

Óvissustig er í gildi vegna snjóflóðahættu á Flateyrarvegi og í Súðavíkurhlíð.

Norðurland:

Hálka, snjóþekja eða þæfingsfærð en unnið að hreinsun.

Vegurinn um Þverárfjall er lokaður vegna veðurs.

Siglufjarðarvegur og Ólafsfjarðarmúli eru lokaðir vegna snjóflóðahættu.

Norðausturland:

Víða snjóþekja og éljagangur. Ófært er á Hólaheiði en unnið að hreinsun. Einnig er ófært á Hólasandi.

Austurland:

Ófært er á Vatnsskarði eystra en unnið að hreinsun.