Veðurstofan spáir því að í dag gangi vindur í suðaustan 13-20 m/s með snjókomu suðvestanlands í fyrstu, en svo slyddu eða rigningu. Það verður hvassast við suðurströndina. Lengst af verður mun hægari vindur NA-lands og úrkomulítið, en í kvöld hvessir þar og það fer að snjóa. Á sama tíma lægir fyrir sunnan og vestan. Hiti verður víða á bilinu 0 til 5 stig í dag.

Í nótt kemur kröpp lægð sunnan úr hafi og það verður vaxandi norðaustanátt og rok eða stormur, 18-25 m/s, og fer að snjóa á norðanverðu landinu í fyrramálið, en þá verður mun hægara og bjart sunnanlands. Það gengur svo í norðan 23-30 m/s á vestanverðu landinu eftir hádegi og verður hvassast við NV-ströndina, en einnig hvessir sunnanlands. Vindstyrkur getur náð ofsaveðri við norðvesturströndina á morgun og jafn vel víðar, t.d. er spáð roki í efri byggðum Reykjavíkur. Það snjóar talsvert á Norðurlandi og Vestfjörðum og það verður hríðarbylur á Vesturlandi.

Annað kvöld verður áfram norðanaftakaveður á norðanverðu og vestanverðu landinu, en það verður mun hægari vindur og skýjað með köflum SA-til. Hiti verður í kringum frostmark.

Ofsaveður sem ber að huga að

Margar gular viðvaranir vegna vinds og hríðarveðurs eru í gildi fyrir morgundaginn og gætu sumar þeirra hækkað í appelsínugult. Óveðrið mun valda samgöngutruflunum á Norður- og Vesturlandi og valda röskun á öllum flugferðum innan- sem utanlands.

Vart þarf að taka fram að ferðalög á umræddum svæðum eru ekki æskileg og fólk er hvatt til að ganga tryggilega frá híbýlum sínum og lausamunum. Byggingarverktakar ættu að koma byggingaefni og vélum í skjól og sama gildir um vörur og vélar á athafnasvæðum og höfnum. Íbúar norðan- og vestanlands ættu einnig að búa sig undir hugsanlegar rafmagnstruflanir, sem gætu haldist þar til veðrinu slotar.

Ef að líkum lætur byrjar norðanhvellurinn að ganga niður aðfaranótt miðvikudags, fyrst vestantil, en áfram herjar þó hríðarbylur á Norðustur- og Austurlandi fram á kvöldið.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á þriðjudag:

Útlit fyrir að gangi í norðanstorm eða -rok á V-verðu landinu, jafnvel ofsaveður, með snjókomu og blindbyl, einkum NV til. Mun hægari vindur A-lands og úrkomulítið þegar kemur fram á daginn. Hiti kringum frostmark.

Á miðvikudag:

Norðanhvassviðri eða -stormur með snjókomu eða skafrenningi, en bjartviðri sunnan heiða. Dregur smám saman úr vindi og ofankomu V til seinni partinn. Frost 0 til 6 stig.

Á fimmtudag:

Norðanáttir með ofankomu og köldu veðri, en áfram bjart S og V til.

Á föstudag:

Norðlæg eða breytileg átt með björtu veðri og talsverðu frosti, en dálítil él úti við sjávarsíðuna.

Á laugardag og sunnudag:

Líklega köld norðaustanátt með éljum, en bjartviðri syðra.

Færð og ástand vega

Yfirlit:

Vetraraðstæður eru um allt land og gular viðvaranir vegna veðurútlits eru í flestum landshlutum.

Höfuðborgarsvæðið:

Hálkublettir eru á stofnæðum á Höfuðborgarsvæðinu, og eins bæði á Kjalarnesi og á Reykjanesbraut.

Suðvesturland:

Víðast hálkublettir en sums staðar hálka.

Vesturland:

Hálka víðast hvar, jafnvel flughált á milli Búða og Hellna.

Vestfirðir:

Víðast hálka. Þæfingur í sunnanverðum Patreksfirði, Dynjandisheiði og Hrafnseyrarheiði eru lokaðar og það er ófært norður í Árneshrepp.

Suðurland:

Hálka á flestum vegum og jafnvel snjóþekja enda snjókoma á köflum.