Veðurstofan spáir norðaustan 15-25 m/s í dag, hvassast suðaustanlands fram eftir morgni, en svo dregur smám saman úr vindi. Á norðanverðu landinu er útlit fyrir snjókomu eða slyddu og fyrir austan er von á rigningu eða slyddu, en annars verður úrkomulítið.

Síðdegis léttir til sunnan- og vestanlands og þá verða norðan 8-15 m/s og í kvöld verður minni úrkoma á öllu landinu.

Í nótt lægir víða, en það gengur í austan og suðaustan 8-15 m/s með slyddu eða rigningu á morgun, en það verður hægara og úrkomulítið á Norður- og Austurlandi.

Hiti verður víða 0 til 5 stig, en vægt frost verður í innsveitum norðantil.

Gular viðvaranir í gildi

Það eru margar gular viðvaranir í gildi í dag og í athugasemd veðurfræðings er vakin athygli á því að það verði norðaustanhvassviðri eða stormur víða á landinu, með vindhviðum upp í 35-50 m/s suðaustantil, fram að hádegi. Snjókoma eða skafrenningur á norðan- og austanverðu landinu mun skapa varasöm akstursskilyrði, sérstaklega á fjallvegum. Ferðalangar eru því hvattir til að fylgjast vel með veðurspám og viðvörunum. Það lægir svo smám saman seinni partinn.

Færð á þjóðvegum

Suðvesturland: Greiðfært er mjög víða en þó eru hálkublettir en á Hellisheiði og í Þrengslum. Hvasst er á Kjalarnesi.

Vesturland: Víðast alveg greiðfært en þó eru sumstaðar hálkublettir en hálka á Laxárdalsheiði.

Vestfirðir: Hálkublettir eru nokkuð víða en hálka er á Kleifaheiði, Kletthálsi og á Gemlufallsheiði. Snjóþekja og skafrenningur er á Steingrímsfjarðarheiði og á Þröskuldum.

Norðurland: Aðalleiðir eru mikið til greiðfærar en snjóþekja og skafrenningur er á Öxnadalsheiði og snjóþekja, hálkublettir og éljagangur á Eyjafjarðarsvæðinu. Hálka er á Þverárfjalli og á nokkrum útvegum. 

Norðausturland: Lokað er um Mývatns- og Möðrudalsöræfin og á Vopnafjarðarheiði. Víðast hvar hálka eða hálkublettir og éljagangur. Ófært er á Hófaskarði.

Austurland: Lokað er um Fjarðarheiði en ófært og stórhríð á Vatnsskarði eystra annars er hálka, hálkublettir eða snjóþekja á vegum. Varað er við hreindýrum við veg á Jökuldal.

Suðausturland: Vegurinn milli Jökulsárlóns og Lómagnúps er lokaður. Hálkublettir eru í Eldhrauni og á Mýrdalssandi en snjóþekja og éljagangur í Suðursveit.

Suðurland: Vegurinn milli Hvolsvallar og Víkur er lokaður. Aðrar leiðir eru greiðfærar en víða nokkuð hvasst.