Brynjar Þór Sigurðsson, faðir stúlku sem hvarf úr Barnalandi í gær hyggst kæra málið til lögreglunnar í vikunni.

„Þetta verður bara að taka alla leið. Það eru komin fram allt of mörg dæmi um eitthvað svona hjá þeim til að sópa þessu undir mottuna enn einu sinni,“ segir Brynjar í samtali við Fréttablaðið.

Að sögn Þóru Jónsdóttur, aðstoðaryfirlögregluþjóns hjá lögreglunni í Kópavogi, var málið tilkynnt til þeirra í gær. Þau tilkynntu það til barnaverndar Kópavogsbæjar sem nú hefur málið til skoðunar.

Engin kæra hefur enn borist en að sögn Brynjars fer hann til lögreglunnar í vikunni og ætlar að leggja fram kæru.

Barnalandi hefur verið lokað á meðan verkferlar teknir til skoðunar.
Fréttablaðið/Ernir

Greint var frá því í morgun að dóttir Brynjars, hin þriggja ára gamla Aníta, hafi horfið úr barnagæslunni en fannst svo í Hagkaup.