Tveggja metra há reðurstytta úr viði var höggin niður um helgina af fjallshlíð í Bæjarlandi samkvæmt Allgaeuer Zeitung. Styttan hafði verið staðsett á Grünten fjalli um árabil en það eina sem er eftir af henni núna er lítill trjástubbur.
Ekki er vitað hver höfundur verksins er en það hefur orðið einskonar kennileiti á svæðinu. Ár hvert leggja margir göngugarpar leið sína að styttunni og hvíla þar lúin bein.
Það liggur heldur ekki fyrir hvernig 200 kílóa styttunni var komið upp á fjallshlíðina. Kenningin, samkvæmt staðarmiðlum, er að styttan hafi verið búin til af hópi ungra manna sem gáfu hana í afmælisgjöf í gríni. Þegar gjöfin sló ekki í gegn hjá vini þeirra hafi mennirnir dregið hana upp fjallið á sleða þannig að sem flestir gætu dáðst að henni.
Óvíst hvort um glæp sé að ræða
Styttan hefur nú staðið á fjallstindinum í fimm ár og þótti aldrei tilefni til að færa hana þaðan, hvorki hjá lögreglu eða bæjaryfirvöldum. Lögreglan hóf rannsókn á hvarfinu í gær en kveðst ekki vera viss hvað skuli gera þegar sökudólgurinn finnist.
„Við vitum ekki hvort þetta sé glæpur eða ekki,“ sagði fulltrúi lögreglunnar í samtali við Allgaeuer Zeitung. Einnig yrði flókið að ákveða á hverjum hafi verið brotið þar sem ekki sé vitað hver eigandi styttunnar sé.
Bæjarstjóri í nágrannabænum Rettenberg, Nikolaus Weissinger, sagði það vera synd að styttan hafi verið fjarlægð.