Matvælastofnun minnir dýraeigendur á að huga að dýrum sínum í óveðrinu sem mun skella á í nótt. Kattaeigendur eru sérstaklega hvattir til að halda heimilisköttum innandyra þar til stormurinn gengur yfir.

„Færa þarf dýr á örugg svæði ef einhver hætta er á að þau geti hrakist undan óveðrinu fram af klettum eða í ár, vötn, sjó eða aðra hættu. Gæta þarf sérstaklega að því að fjarlægja eða festa alla lausa hluti í kringum dýrin, því fljúgandi hlutir geta bæði valdið ofsahræðslu og beinum skaða. Mjög varasamt er að flytja hestakerrur í miklu hvassviðri,“ segir í tilkynningu frá MAST.

„Um leið og veður lægir og talið er óhætt að vera á ferli eru dýraeigendur hvattir til að huga eins fljótt og auðið er að dýrum sínum.“

Eftir ofsaveðrið sem gekk yfir í desember drápust hátt í 80 hross á Norð­vestur­landi og var hundrað hrossa saknað.  Rauð viðvörun verður í gildi á morgun á höfuðborgarsvæðinu, Suðurlandi, Faxaflóa og Suðausturlandi. Alls staðar annars staðar verður í gildi appelsínugul viðvörun.

Fólki er ráðlagt að halda sig heima.

Veðurstofa Íslands

Stöðuuppfærsla frá Reykjavíkurborg:

Rík­is­lög­reglu­stjóri hef­ur lýst yfir óvissu­stigi al­manna­varna fyr­ir allt landið vegna aftaka­veðurs á morg­un, föstu­dag 14. febrúar.

Rauð veðurviðvörun hefur verið gefin út fyrir höfuðborgarsvæðið frá kl. 7 í fyrramálið sem þýðir að fólk á ekki að vera á ferðinni nema brýna nauðsyn beri til. 

Reglulegt skólahald fellur niður en leikskólar og grunnskólar verða engu að síður opnir með lágmarksmönnun fyrir fólk sem þarf nauðsynlega á vistun fyrir börn sína að halda – það er fólk sem sinnir neyðarþjónustu, löggæslu, slökkvistörfum og björgunarsveitarútköllum. 

Veðrið gengur niður eftir kl. 15 samkvæmt spá sem þýðir að ýmis þjónusta raskast eða fellur niður í fyrramálið og jafnvel allan daginn.

  • Almennt skólahald fellur niður
  • Sundlaugar á höfuðborgarsvæðinu verða lokaðar en opna kl. 15
  • Frístundaheimili opna þegar viðvörunum lýkur. Eins og staðan er núna er appelsínugul viðvörun í gildi til kl. 15:00
  • Þjónustumiðstöðvar verða lokaðar til kl. 15.
  • Skerðing verður á þjónustu heimahjúkrunar en neyðartilvikum sinnt eftir föngum.
  • Byrjað verður að keyra út heimsendan mat í kvöld og því haldið áfram eftir hádegi á morgun ef veður leyfir.
  • Neyðarskýli fyrir heimilislaust fólk verða opin allan daginn.
  • Söfn borgarinnar verða lokuð á morgun, en Borgarbókasafnið, Landnámssýningin og Ljósmyndasafn Reykjavíkur verða opnuð kl. 15 ef veður leyfir.
  • Þjónustuver Reykjavíkurborgar verður opið og svarar í síma 411 1111.

Fólk er hvatt til þess að halda sig heima í fyrramálið og fylgjast vel með tilkynningum frá almannavörnum í fjölmiðlum. 

Samkvæmt spám á veður að ganga niður eftir hádegi og verður hægt að vera á ferðinni eftir kl. 15 að öllu óbreyttu.

Staðan verður endurmetin í fyrramálið.