Stórir hvalir á borð við skíðis­hvali hafa fjöl­þætt á­hrif á vist­kerfi sjávar og erfitt er að segja með vissu hver á­hrifin yrðu ef hvalir myndu hverfa úr hafinu. Að sögn Eddu Elísa­betar Magnús­dóttur, doktor í sjávar­líf­fræði og lektor í líf­fræði hjá Há­skóla Ís­lands, hafa skíðis­hvalir við­haft sínum lifnaðar­háttum í tugi milljóna ára í jafn­vægi við um­hverfið sitt.

Hvalirnir taka þátt í hring­rás náttúrunnar með því að inn­byrða fæðu og skila úr­gangs­efnum aftur til vist­kerfisins. „Saur­lát hvala er í reynd af­skap­lega mikil­vægt fyrir vist­kerfi sjávar, meðal annars með dreifingu næringar­efna upp í efri lög sjávar“ segir Edda.

Næringar­efnin sem fást úr saur­láti hvala eru mikil­væg ljós­til­lífandi líf­verum sem þurfa næringar­efnin til að geta ljós­til­lífað og fjölgað sér, að sögn Eddu. Þar megi til dæmis nefna svif­þörunga en svif­þörungar eru sér­stak­lega mikil­vægir vist­kerfinu.

„Svif­þörungarnir eru grunn­stoðin í orku­flutningi í vist­kerfum, líkt og plöntur fram­leiða þeir líf­ræn efni sem sem aðrar líf­verur nærast á,“ segir Edda. „Einnig fram­leiða þeir súr­efni eins og aðrar ljós­til­lífandi líf­verur og binda kol­tví­sýring.“

Sumir hvalir kafa mjög djúpt eftir næringu en aðrir halda sér ofar í vatns­bolnum. Þau skila úr­gangs­efnunum á yfir­borðið og flytja þannig þessi næringar­efni frá ýmsum lögum sjávar til þörunganna og bakteríanna sem dvelja á yfir­borðinu og ljós­til­lífa.

Hvalir mikil­vægir í bindingu kol­efnis


Stórir hvalir binda kol­efni í líkömum sínum, eins og allar líf­verur gera í sam­ræmi við stærð. Þegar hvalirnir deyja í hafinu falla þeir á hafs­botninn þar sem kol­efnið og önnur næringar­efni nýtast inn í vist­kerfin í neðstu lögum sjávar. Botn­líf­verur flytja þau svo í efri lögin þegar þær eru étnar af öðrum líf­verum.

Sam­kvæmt Eddu geta stór­hveli bundið mikið magn kol­efnis nái þeir fullum aldri, sem er milli fjöru­tíu og hundrað ár. Að meðal­tali safni stór­hveli um 33 tonnum af kol­efni á sínum líf­tíma. „Vegna þessa hefur um­ræðan um mikil­vægi hvala í bindingu kol­efnis orðið há­værari á síðustu árum,“ segir hún.

Deyi hvalur í hafinu losnar kol­efnið ekki út í um­hverfið í formi kol­tví­sýrings heldur nýtist það öðrum sjávar­líf­verum. Þegar hvalur er dreginn á land og verkaður losnar hins vegar mun meira af kol­tví­sýring milli­liða­laust út í and­rúms­loftið enda er ekki allur hvalurinn nýttur. Ó­nýttar líkams­leifar rotna eða eru brenndar og við það losna gróður­húsa­loft­tegundir, að sögn Eddu.

Edda hefur einnig velt því upp hvort hvalir losi mikið af metani í formi prumps í svari á Vísinda­vefnum. Í megin­dráttum segir hún að „þrátt fyrir mikla líkams­stærð er ekkert sem bendir sterk­lega til þess að gaslosun hvala hafi slæm á­hrif á um­hverfið“.

Fjölga sér hægt og borða mikið


Stofnar þeirra hvala sem veiddir eru á Ís­landi eru ekki mjög stórir, að sögn Eddu. „Lang­reyðar­stofninn frá austur Græn­landi til Fær­eyja telur um 40-45 þúsund ein­stak­linga,“ segir hún. „Hrefnurnar telja um 155 þúsund ein­stak­linga allt frá norð­austur­strönd Banda­ríkjanna og yfir til Bret­lands­eyja.“

Fækkun hvala skerðir erfða­fræði­lega breyti­leika innan stofna þeirra en það getur meðal annars haft þau á­hrif að þeir veikist gegn um­hverfis­breytingum og eigi meiri hættu á að fá arf­genga sjúk­dóma. „Nýting villtra spen­dýra­stofna sem fjölga sér hægt eins og hvalir er með engu sam­bæri­legur nýtingu bú­fénaðar eða fiski­stofna,“ segir Edda.

Hver og einn skíðis­hvalur við Ís­land getur étið mikið magn á dag þegar fæðu­fram­boð er mikið, segir Edda. „Skíðis­hvalir hafa að­lagast að nýtingu smárrar fæðu úr sjónum sem fyrir­finnst í miklu magni, svo sem átu sem eru smá­vaxin svif­krabba­dýr og smærri torfu­fiskum eins og síld, loðnu og sardínum,“ segir hún.

Langreyður getur orðið 27 metrar að stærð og lifað í rúm hundrað ár.
Fréttablaðið/Getty

Fæðu­fram­boð er gjarnan minna á veturna en hvalirnir þurfa að borða mikið og safna spik­forða á sumrin til að fram­fleyta sér í gegnum mögru mánuðina. Á veturna ferðast hvalir oft langt frá fæðu­stöð til að æxlast á hita­beltinu. Æxlunin er orku­frek og kýrnar þurfa að vera með næga orku til að fram­leiða mjólk yfir veturinn fyrir kálfinn sinn.

Át hvala rétt­læti ekki hval­veiðar


Skíðis­hvalir hafa að sögn Eddu við­haft þessum lifnaðar­háttum í tugi milljónir ára í jafn­vægi við um­hverfið sitt. Jafn­vægið helst svo lengi sem þeir taka ekki meira en um­hverfið þolir. Hvalir borða ýmsar litlar sjávar­verur sem fjölga sér hratt og með því halda þeir þeim stofnum í skefjum. Um­hverfis­þættir og at­hafnir manna geti þó skert af­komu þessara tegunda.

„Þessu vil ég vekja at­hygli á þar sem gjarnan hefur verið reynt að rétt­læta hval­veiðar vegna þess magns fæðu sem skíðis­hvalir þurfa að inn­byrða per ein­stak­ling og því gefið í skyn að magnið sé ó­náttúru­legt og vont fyrir náttúruna,“ segir Edda. „Slík rök eiga ekki rétt á sér við rétt­lætingu hval­veiða.“

Sam­kvæmt Eddu er talið að allir hvalir heims taki um þrisvar til fjórum sinnum meira en fiski­veiði­flotar allra landa til samans. Erfitt sé þó að ná ná­kvæmum tölum. „Mestur hluti fæðu hvala er þó áta, smokk­fiskur eða fisk­tegundir sem menn nýta ekki,“ segir hún.

„Hér við land er talið að hvalir éti um sex milljón tonn af sjávar­fangi ár­lega sem skiptist niður í um fjögur milljón tonn af átu og smokk­fiski og tvö milljón tonn af fiski,“ segir Edda. „Ýmsir ó­vissu­þættir eru í þessum út­reikningum og gefa þeir fyrst og fremst grófa mynd af áti hvalanna. Til saman­burðar má hafa í huga að heildar­afli Ís­lendinga er um 1,5 milljón tonn á ári.“

Gefa aftur til vist­kerfis sjávar


Sumir hafa reynt að færa rök fyrir því að hval­veiðar geti verið af hinu góða þar sem þær minnki sam­keppni við út­gerðina og fæðu­sam­keppni við þá fiska sem út­gerðin veiðir. Það er að segja að með því að fækka hvölum fjölgi fiskum sem út­gerðin getur gert út og selt.

Þá er ekki tekið með í reikninginn öll þau næringar­efni sem hvalir skila til sjávar í formi saurs og hræja. Hvoru tveggja mikil­vægt fyrir vist­kerfið og af­komu fiska í sjónum.

Edda segir fæðu­keðjuna vera of flókna til að hægt sé að leggja át hvala til jöfnu við af­la­getu fisk­veiði­flotans. „Hvalir gefa mikið til baka í vist­kerfi hafsins, þá sér­stak­lega í formi saurs sem er næringar­ríkur og gagn­legur fyrir líf­ríkið en einnig eftir að hvalirnir deyja nýtast líkamar þeirra að fullu út í líf­ríkið,“ segir hún.

„Mikil­vægt er að leggja á­herslu á að hvalir eru í miklu jafn­vægi við um­hverfi sitt og eru lík­lega mjög mikil­vægir í temprun á stofn­stærðum ýmissa sjávar­líf­vera og eiga þátt í að halda þeim tegundum sem þeir nærast á í jafn­vægi við um­hverfið,“ segir Edda.