Sema Erla Serdar, for­maður hjálpar­sam­takanna Solaris fyrir hælis­leit­endur og flótta­fólk, segir að­spurð um um­mæli við fréttir af hælis­leit­endum, óttast að and­úð í garð hópsins sé að aukast hér á landi.

Til­efnið eru um­mæli þó nokkurra les­enda Frétta­blaðsins við fréttir af að­stæðum hælis­leit­enda í húsa­kynnum Út­lendinga­stofnunar á Grens­ás­vegi undan­farna daga. Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn almannavarna greindi í dag frá því að hópsmit hefði komið upp í búsetuúrræði Útlendingastofnunar sem rekið er af félagsþjónustu Hafnarfjarðar.

Blaðið hefur síðast­liðnu daga fjallað um að­stæður íbúa í hús­næði stofnunarinnar á Grensásvegi. Þeir segjast óttast að­stæður sínar þar sem þeir búa við þröngan kost og óttast því að CO­VID-19 smit muni dreifast auð­veld­lega á milli íbúa komist það þangað inn. Smit í Hafnarfirði hafi sýnt fram á hættuna sem stafi af því.

Í tví­gang hefur Frétta­blaðið lokað um­mæla­kerfum í kjölfar fjölda rætinna ummæla um hópinn. „Í burtu með þessi sný­kju­dýr,“ skrifaði kona nokkur. „Þessir brund­hrútar geta bara farið heim til sín,“ skrifaði annar lesandi.

„Hvaða kvart er þetta í þessum Hand­klæða­hausum !!! Er ekki í boði fyrir þá að fara í næstu Flótta­manna­búðir ef þetta er ekki nógu gott fyrir þá ??“ skrifaði sá þriðji. „Ef það er svona hræði­legt að vera hér af­hverju farið þið þá ekki heim til ykkar,“ skrifaði svo sá fjórði.

Fréttablaðið/Skjáskot

Hælis­leit­endur hafi gleymst í heims­far­aldrinum

„Það er svo sem aldrei skortur á þeim sem að sjá tæki­færi í því að spúa hatri og for­dómum á kommenta­kerfum vef­miðlanna þegar það fer fram um­ræða um að­stæður jaðar­settra hópa í sam­fé­laginu,“ segir Sema. Hún segir hræði­legt að fylgjast með þessu og segir að­spurð að and­úðin í garð hópsins virðist fara vaxandi.

„Hún verður alltaf sýni­legri og verður ljótari í hvert sinn sem það er ein­hver um­fjöllun í gangi. Og það er bara ó­trú­lega sorg­legt að fólk skuli búa yfir þessum til­finningum í garð fólks sem hefur ekki gert þeim nokkurn skapaðan hlut.“

Hún bendir á að um sé að ræða hóp í mjög við­kvæmri stöðu. „Við erum að tala um ein­stak­linga sem hafa upp­lifað hörmungar sem maður óskar ekki sínum verstu ó­vinum. Það er mjög erfitt þó maður reyni að setja sig í spor þeirra og það er ó­skiljan­legt af hverju þetta er svona,“ segir hún.

Sema segist telja að hópurinn sé sá hópur sem gleymst hafi á tímum heims­far­aldursins. „Ég vil meina að þetta sé hópur fólks sem hafi gleymst að mestu leyti þegar kemur að heims­far­aldrinum og við­brögðum við honum.

Þau eru ekki að taka af neinum öðrum, svo þetta er fyrst og fremst sorg­legt og endur­speglar fyrst og fremst hvernig ein­stak­linga þeir hafa að geyma sem skrifa svona, en ekki neitt um þá sem sækja sér hjálpar í neyð.“

Standa að söfnun til að gleðja flóttafólk

„Hún gengur mjög vel. Við erum á fullu að undir­búa það að geta af­hent vetrarglaðninga, bæði til barna og fleiri sem eru hér yfir há­tíðarnar að bíða úr­lausna sinna mála,“ segir hún.

Sema bendir á að fleiri en hundrað börn bíða nú úr­lausnar á sínum málum. „Við settum því af stað þessa söfnun, sem gengur mjög vel og við stefnum á að af­henda þessum börnum gjafir í næstu viku og ætlum einnig að fara með glaðninga í þessi stóru bú­setu­úr­ræði,“ segir hún.

Hefð hafi skapast fyrir vetrar-og friðar­há­tíð fyrir fólk á flótta um jólin í samvinnu fólks alls staðar að, sem Solaris hefur tekið þátt í. Ekkert verði þó af því í ár vegna far­aldursins. „Aug­ljós­lega verður ekkert úr því í ár en okkur fannst samt mikil­vægt að finna aðrar leiðir til að lýsa upp skamm­degið hjá þessum hópi fólks sem upp­lifir mikið myrkur þessa dagana.“

Þeim sem hafa á­huga á að styrkja söfnun Solaris fyrir vetrar­gjafir handa flótta­fólki er bent á að hægt er að leggja inn á reikning sam­takanna. Reiknings­númer: 515-26-600217. Kenni­tala: 600217-0380. Færsla skal merkt:W2020.

Solaris samtökin vilja leggja sitt af mörkum við að gleðja þau börn og ungmenni sem sótt hafa um alþjóðlega vernd hér á...

Posted by Solaris - hjálparsamtök fyrir hælisleitendur og flóttafólk á Íslandi on Sunday, 6 December 2020