Alls sóttu fimm borgir í Hollandi um að fá að halda Söngvakeppnina, Eurovision, árið 2020. Ljóst er að annaðhvort Maastricht eða Rotterdam muni hreppa hnossið en hinar borgirnar eru dottnar úr leik.

Báðar borgir hæfar

Umsóknir Maastricht og Rotterdam þóttu skara fram úr þar sem þær sýndu fram á að geta skipulagt sjónvarpsútsendingu keppninnar ásamt því að halda hliðarviðburði á borð við Eurovison þorpið og Euroklúbbinn.

„Við erum sannfærð um að Maastricht og Rotterdam bjóða upp á alls sem krafist er af gestgjöfum Söngvakeppninnar,“ sagði Sietse Bakker, framkvæmdarstjóri Söngvakeppninnar árið 2020.

Duncan fangaði hjörtu Evrópumanna í ár

Duncan Laurence sem keppti fyrir Holland í ár, endaði í fyrsta sæti og tryggði þar með Hollandi réttin til að vera gestgjafar árið 2020. Ísland endaði í tíunda sæti í keppninni sem er besti árangur Íslands síðan 2009 þegar Jóhanna Guðrún lenti í öðru sæti.