Eins og flestum ætti að vera kunnugt tekur sam­komu­bann gildi á mið­nætti að­fara­nótt mánu­dags. Á vefnum Co­vid.is er farið yfir það hvað bannið felur í sér og eru lands­menn hvattir til að kynna sér það.

„Með sam­komu­banni er átt við skipu­lagða við­burði þar sem fleiri en 100 manns koma saman. Við öll minni manna­mót þarf auk þess að tryggja að nánd milli manna sé að minnsta kosti yfir tveir metrar og að að­gengi að hand­þvotti og hand­spritti sé gott,“ segir á vefnum.

Þá er bent á skipu­lagða við­burði sem bannið nær. Þeir eru til dæmis:

Ráð­stefnur, mál­þing, fundir og hlið­stæðir við­burðir.

Skemmtanir, s.s. tón­leikar, leik­sýningar, bíó­sýningar, í­þrótta­við­burðir og einka­sam­kvæmi.

Kirkju­at­hafnir hvers konar, s.s. vegna út­fara, giftinga, ferminga og annarra trúar­sam­koma.

Þá þurfa aðrir staðir að auki að tryggja að ekki séu á sama tíma fleiri en 100 manns inni í sama rými. Þetta á t.d. við um vinnu­staði, veitinga­staði, mötu­neyti, kaffi­hús, skemmti­staði, verslanir, sund­laugar, líkams­ræktar­stöðvar, og söfn. Þessi mörk eiga einnig við um al­mennings­sam­göngur og aðra sam­bæri­legra starf­semi, að því er segir á vefnum.

Þar sem eru færri saman­komnir, til dæmis á vinnu­stöðum og í allri annarri starf­semi, skal eins og mögu­legt er skipu­leggja rými þannig að hægt sé að hafa að minnsta kosti tvo metra á milli ein­stak­linga.

Hvernig verður skóla­haldi háttað?


„Tölu­verðar tak­markanir eru á skóla­haldi á meðan á sam­komu­banninu stendur. Í mörgum til­fellum geta nem­endur ekki mætt í skóla­byggingar heldur stunda nám í fjar­kennslu. Í öðrum til­fellum eru strangar kröfur settar um fjölda og ná­lægð nem­enda.“

Eins og kom fram á blaða­manna­fundi heil­brigðis­ráð­herra í morgun gilda tak­markanirnar um leik­skóla, grunn­skóla, fram­halds­skóla og há­skóla en einnig aðrar mennta­stofnanir, frí­stunda­heimili, fé­lags­mið­stöðvar og í­þrótta­starf.

Fram­halds­skólum og há­skólum verður lokað og kennsla fer fram í fjar­kennslu eins og hægt er.

„Grunn­skólar mega hafa kennslu í skóla­byggingum ef þeir tryggja að ekki séu fleiri en 20 nem­endur í sömu kennslu­stofu og að nem­endur blandist ekki milli hópa, til dæmis í mötu­neyti eða frí­mínútum. Eins þarf að þrífa eða sótt­hreinsa skóla­byggingarnar eftir hvern dag.“

Þá mega leik­skólar hafa opið og halda uppi leik­skóla­starfi ef þeir tryggja að börn séu í fá­mennum hópum og að­skilin eins og kostur er. Eins þarf að þrífa eða sótt­hreinsa leik­skóla­byggingarnar eftir hvern dag.

Á vefnum segir að þessar tak­markanir verði í stöðugu endur­mati þannig að hægt sé að draga úr þeim eða þá lengja tíma­bilið sem þær gilda ef þörf þykir.

Hvað fellur ekki undir sam­komu­bann?


„Sam­komu­bannið nær ekki til al­þjóða­flug­valla eða al­þjóða­hafna, flug­véla eða skipa. Hvatt er til þess að sótt­varna­ráð­stafanir verði efldar og rekstrar­aðilar grípi til ýtrustu ráð­stafana til að minnka mögu­leika á smiti.“

Hve­nær hefst sam­komu­bannið og hve­nær lýkur því?


„Sam­komu­bannið gildir í fjórar vikur, frá og með mánu­deginum 16. mars kl. 00:01 til og með mánu­dagsins 13. apríl kl. 00:01.“

Hvers vegna er sett á sam­komu­bann?


„Smitum á Ís­landi fjölgar dag frá degi og svo­kölluðum þriðja stigs smitum einnig. Þá eru dæmi um smit sem ekki hefur tekist að rekja til utan­ferða annarra ein­stak­linga. Þetta gefur vís­bendingu um að hætta sé á að CO­VID-19 geti nú farið að smitast hraðar milli fólks en hingað til.

Á sama tíma er hópur starfs­manna Land­spítala í sótt­kví og gæti frekari út­breiðsla far­aldursins dregið úr getu spítalans til að sinna hlut­verki sínu.

Því er það mat sótt­varna­læknis að nú sé rétti tíminn til að grípa til nauð­syn­legra að­gerða til að hægja á far­aldrinum til að auka líkur á því að heil­brigðis­kerfið geti sinnt þeim sem veikjast af CO­VID-19 á­samt því að sinna annarri bráða­þjónustu.“