Hinn almenni bílstjóri getur þó gert ýmislegt ennþá en greinilegt er að faraldurinn hefur haft áhrif á ferðavenjur okkar og minnkað umferð. Hér eru nokkrar upplýsingar fyrir bílstjóra og ráðleggingar sem er gott að hafa.

Get ég ennþá ekið bíl?

Það er ekkert sem bannar manni að aka þótt rétt sé að halda ferðum í lágmarki. Ef þú ert í sóttkví máttu ennþá aka bíl en ekki vera í snertingu við einhvern, eins og til dæmis starfsmann í bílalúgu. Auðvitað ætti enginn að vera að skutlast með annað fólk nema að brýna nauðsyn beri til.

Hvað með bensínstöðvar?

Bensín og olía hefur lækkað talsvert á síðustu vikum og mun eflaust halda áfram að gera það. Bensíndælur hafa verið skilgreindar sem áhætta fyrir smit og því ættu allir sem að dæla bensíni að nota hlífðarhanska sem olíufélögin hafa sett upp á dælum sínum. Þeir sem ekki hafa orðið sér úti um bensínkort eða lykla ættu að gera það strax á heimasíðu viðkomandi olíufélags og fá sent heim í pósti, til að geta notað snertilausa greiðslu á dælunni. Einnig virkar á flestum dælum að borga með Apple Pay.

Get ég enn farið með bílinn minn í þjónustu?

Breyttar verklagsreglur eru í gildi hjá bílaumboðum og þótt ennþá sé hægt að reynsluaka nýjum bílum er það aðeins gert með sótthreinsuðum lyklum og bílar þrifnir milli prófana. Hjá sumum umboðum er boðist til að sækja bílinn heim fyrir þjónustuskoðun og eru bílarnir gjarnan aðgreindir frá hvorum öðrum á verkstæðinu.

Get ég farið með bílinn í skoðun?

Sumar skoðunarstöðvar eru með takmarkaðan opnunartíma þótt aðrar séu með fulla starfsemi. Hjá Frumherja er stöðin á Granda lokuð en hægt er að nálgast númeraplötur sem þar voru geymdar gegnum afgreiðsluna í Klettagörðum. Einnig eru stöðvarnar í Grindavík, Blönduósi, Siglufirði, Þórshöfn, Kópaskeri og Vopnafirði lokaðar og í Borgarnesi 23.-27. mars. Allar stöðvar Aðalskoðunar og Tékklands eru opnar eins og er.

Get ég farið í bílpróf?

Frumherji sem sér um öll ökupróf í landinu, bókleg eða verkleg, hefur lokað fyrir verkleg próf eftir að samkomubann með tveggja metra reglu tóku gildi. Gildir bannið þar til annað kemur í ljós en ennþá er opið fyrir bókleg próf með takmörkunum. Ökuskóli 3 hefur einnig lokað á starfsemi þar til aðstæður breytast.