Flestir hafa eflaust heyrt um apabólu sem herjar nú á mannkynið, en fæstir geta líklega sagt nákvæmlega hvað apabóla er.
Jón Magnús Jóhannesson, læknir og rannsakandi skrifaði nýverið á Vísindavefinn svar við spurningunni, hvað er apabóla?
Apabóla er sjaldgæfur smitsjúkdómur sem er landlægur í nokkrum löndum mið-og vesturhluta Afríku. Ef litið er til síðustu áratuga hafa flest tilfelli greinst í Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó og Nígeríu.
Sjúkdómurinn er vegna veirusýkingar en orsakaveiran er apabóluveira. Veiran smitast fyrst og fremst frá dýrum í menn og er því svo kölluð súna. Súnur eru sjúkdómar sem eiga uppruna sinn í dýrum en smitast á milli manna og dýra annað hvort beint eða óbeint. Smit manna á milli er samt sem áður mögulegt.
Sjúkdómsferill apabólu í mönnum
Apabóla skiptist upp í tvo hópa, mið-afríkuhópur, CAC og vestur-afríkuhópur, WAC. Til þessa hefur verið talið að CAC veiran dreifist betur og geti valdið alvarlegri sjúkdómum. Smitleiðir tegundanna eru svipaðar, en talið er að CAC veiran dreifist betur utan Afríku.
Sjúkdómsferill apabólu er skipt í fjóra hluta: meðgöngutíma, hitafasa, útbrotfasa og batafasa. Það getur tekið fim til fjórtán daga fyrir einkenni að koma fram og er það hin svo kallaði meðgöngutími.
Eftir það kemur hitafasinn, sem einkennist af hita, eitlastækkanir, slappleika og þreytu. Þessi fasi varir oftast í einn til fjóra daga, en eftir hann koma útbrotin fram sem einkenna útbrotsfasann.
Útbrotin koma fram í 95 til 100 prósent tilfella og eru algengasta birtingarform apabólu. Þessi fasi varir tvær til fjórar vikur. Útbrotin eru rauðleitir, flatir blettir á húð, sem geta orðið upphleyptir blettir, blöðrur, opin sár og fleira.
Útbrotin byrja oftast á andliti og dreifast þaðan yfir allan líkamann. Útbrot geta einnig myndast á slímhúð, til dæmis í endaþarmi, kynfærum og í munni.
Eftir það hefst batafasinn.
Er hægt að deyja af apabólu?
Flestir sem fá apabólu jafna sig að fullu, en fylgikvillar geta verið margir. Apabóla getur orðið að lífshættulegri sýkingu og leitt til dauða. Tegund apabólu skiptir þá líka máli, en ef um er að ræða WAC veiru þá er eitt prósent þeirra sem smitast sem deyja, en í tilfelli CAC veiru er hlutfallið tíu prósent. Hins vegar skrifar Jón að þessar tölur eru fengnar úr löndum þar sem aðgengi að heilbrigðisþjónustu, næringu og hreinu vatni oft verulega ábótavant.
Margar ástæður fyrir vaxandi tilfellum
Apabóla er almennt séð sjaldgæfur sjúkdómur en hann hefur farið stigvaxandi síðustu ár. Hugsanlegar orsakir eru meðal annars eyðing skóga, loftslagsbreytingar, stríð, fólksflutningar og minnkandi ónæmi gegn bólusótt eftir útrýmingu sjúkdómsins.
Sjúkdómurinn hafði lengi vel aðeins náð festu í Afríku, en fyrir árið 2022 höfðu innflutt tilfelli apabólu ásamt takmarkaðir dreifingu manna á milli aðeins greinst í fjórum löndum: Ísrael, Singapúr, Bretlandi og Bandaríkjunum.
Smitleiðir sjúkdómsins
Jón Magnús undirstrikar í svari sínu að apabólan berist sjaldan frá öpum í menn. Ástæðan fyrir nafninu apabóla er einfaldlega sú að hún greindist fyrst í öpum árið 1958. Það geta margskonar dýr, sérstaklega nagdýr hýst veiruna og þaðan getur veiran borist áfram í menn eða önnur dýr.
Apabóla smitast á milli manna með nokkrum leiðum:
- Smitleiðir eru dropasmit og snertismit við náið samneyti.
- Veiran getur einnig lifað lengi á þurru yfirborði (mánuði/ár) og þannig borist með fatnaði, rúmfötum eða handklæðum yfir í fólk.
- Dropasmit er frá öndunarvegi þess sýkta (munnvatn, hósti, hnerri) við náið samneyti en snertismit verða vegna vessa frá útbrotum við snertingu manna á milli eða með rúmfötum, fatnaði o.þ.h. í gegnum húð og slímhúð.
Dreifing manna á milli hefur almennt verið lítil og með réttum smitvörnum er auðvelt að hafa hemil á útbreiðslu sjúkdómsins. Jón skrifar að dreifing á milli manna sé með sömu leiðum og hefur áður verið þekkt, en vekur athygli á því hver stór hluti tilfella er í karlmönnum sem sofa hjá öðrum karlmönnum. Talið er að það sé aðeins tilviljun að apabólan hafi borist til þessa tiltekna hóps, en sjúkdómurinn dreifðist síðan með náinni snertingu sem fylgir kynlífi.
Allir geta fengið apabólu og náin snerting manna á milli dugar eitt og sér til að smitast. Einstaklingur telst vera hættur að smita þegar heilbrigð húð hefur gróið yfir öll fyrri sár.