Hútar, uppreisnarhreyfingin sem á í stríði við ríkisstjórn Abd Rabbuh Mansur al-Hadi, forseta Jemens, pyntir fanga sína. Þetta kom fram í umfjöllun sem AP birti í gær og byggði á rannsókn miðilsins í samstarfi við Pulitzer-stofnunina.

Alls ræddi AP við 23 einstaklinga sem sögðust annað hvort hafa sjálf þurft að þola pyntingar Húta eða að þau væru sjónarvottar að slíkum pyntingum. Einnig var rætt við átta skyldmenni pyntaðra fanga, fimm lögmenn og aðgerðarsinna og þrjá löggæslumenn á vegum Hadi-stjórnarinnar sem sögðust hafa séð merki um pyntingar á föngum sem fengust í fangaskiptum við Húta.

Samtök kvenkyns skyldmenna fanga Húta hafa á skrá rúmlega 18.000 einstaklinga sem Hútar hafa tekið fasta. Þar af er talið að um þúsund hafi verið pyntaðir í leynilegum fangelsum og að 126 hið minnsta hafi dáið vegna pyntinga Húta frá því þeir tóku yfir höfuðborgina Sana síðla árs 2014.

Leiðtogar Húta hafa áður neitað því að þeir hafi beitt pyntingum. Samkvæmt umfjöllun AP vildi enginn þeirra svara fyrirspurnum miðilsins.

Friðarviðræður á milli Húta og Hadi-stjórnarinnar fóru fram í Svíþjóð í gær. Samkvæmt Reuters lögðu stjórnarliðar til að alþjóðaflugvöllurinn í Sana, sem Hútar halda, yrði opnaður á ný gegn því að leyfi fengist til þess að skoða allar þær flugvélar sem fara um flugvöllinn. Á fimmtudag var samþykkt að frelsa þúsundir fanga. Martin Griffiths, sáttasemjari á vegum SÞ, sagði að viðræðurnar byrjuðu vel.