Á ríkis­stjórnar­fundi síðasta föstudag sam­þykkti ríki­stjórnin að veita tveggja milljóna króna styrk til Euro­vision­safnsins sem á­ætlað er að opna á Húsa­vík næst­komandi sumar. Húsvíkingar eru spenntir fyrir verkefninu og vinna nú að myndbandi þar sem þeir munu skora á Óskarsakademíuna til að tilnefna lagið Húsavík úr Eurovision-mynd Will Ferrell til verðlaunanna í ár.

Ör­lygur Hnefill Ör­lygs­son, hótel­stjóri og bæjar­full­trúi á Húsa­vík, sem er í for­svari fyrir Euro­vision­safnið segist hæst­á­nægður með styrkinn en hann geri það að verkum að verk­efnið sé nú full­fjár­magnað.

Stefnt er að því að opna safnið í byrjun sumars og telur Ör­lygur að það muni verða mikið að­dráttar­afl fyrir Húsa­vík. Meðal þess sem verður í boði á safninu er eftir­líking af út­sendingar­bíl þar sem gestir geta spreytt sig á því að stýra Euro­vision-út­sendingu með því að skipta á milli töku­véla og prófa sig á­fram með tækni­legar hliðar söngva­keppninnar.

„Keppnin náttúr­lega hefur gríðar­lega merkingu sem sam­einingar­tákn, hún verður til upp úr stríði og hefur þannig hlut­verk líka. Svo er þetta líka tækni­legt og mjög kúltúral, þannig við erum að sýna þessar fjöl­mörgu hliðar keppninnar,“ segir Ör­lygur.

Þá hefur skapast mikil eftir­vænting meðal Hús­víkinga fyrir væntan­legum til­nefningum til Óskars­verð­launanna en talið er lík­legt að lagið Husa­vik úr myndinni Euro­vision Song Con­test: The Story of Fire Saga með Will Ferrell og Rachel M­cA­dams í aðal­hlut­verkum muni hljóta til­nefningu. Í­búar Húsa­víkur hafa fram­leitt sér­stakt mynd­band þar sem þeir hvetja Óskar­sakademíuna til að til­nefna lagið sem verður frum­sýnt næst­komandi mánu­dag.