Á ríkisstjórnarfundi síðasta föstudag samþykkti ríkistjórnin að veita tveggja milljóna króna styrk til Eurovisionsafnsins sem áætlað er að opna á Húsavík næstkomandi sumar. Húsvíkingar eru spenntir fyrir verkefninu og vinna nú að myndbandi þar sem þeir munu skora á Óskarsakademíuna til að tilnefna lagið Húsavík úr Eurovision-mynd Will Ferrell til verðlaunanna í ár.
Örlygur Hnefill Örlygsson, hótelstjóri og bæjarfulltrúi á Húsavík, sem er í forsvari fyrir Eurovisionsafnið segist hæstánægður með styrkinn en hann geri það að verkum að verkefnið sé nú fullfjármagnað.
Stefnt er að því að opna safnið í byrjun sumars og telur Örlygur að það muni verða mikið aðdráttarafl fyrir Húsavík. Meðal þess sem verður í boði á safninu er eftirlíking af útsendingarbíl þar sem gestir geta spreytt sig á því að stýra Eurovision-útsendingu með því að skipta á milli tökuvéla og prófa sig áfram með tæknilegar hliðar söngvakeppninnar.
„Keppnin náttúrlega hefur gríðarlega merkingu sem sameiningartákn, hún verður til upp úr stríði og hefur þannig hlutverk líka. Svo er þetta líka tæknilegt og mjög kúltúral, þannig við erum að sýna þessar fjölmörgu hliðar keppninnar,“ segir Örlygur.
Þá hefur skapast mikil eftirvænting meðal Húsvíkinga fyrir væntanlegum tilnefningum til Óskarsverðlaunanna en talið er líklegt að lagið Husavik úr myndinni Eurovision Song Contest: The Story of Fire Saga með Will Ferrell og Rachel McAdams í aðalhlutverkum muni hljóta tilnefningu. Íbúar Húsavíkur hafa framleitt sérstakt myndband þar sem þeir hvetja Óskarsakademíuna til að tilnefna lagið sem verður frumsýnt næstkomandi mánudag.