Óánægja er meðal sumra Húsvíkinga með heimsendan mat sem Heilbrigðisstofnun Norðurlands sendi einstæðum, öldruðum og sjúklingum utan spítalans heim í hádeginu á aðfangadag og gamlársdag.

Boðið var upp á tvær slátursneiðar og grjónagraut í bæði skiptin. Á Landspítalanum var boðið upp á sviðasultu og rófustöppu á sama tíma samkvæmt upplýsingum blaðsins.

„Mér finnst þetta óboðlegt, því þarna eru einstæðingar sem eiga kannski bara kost á þessari einu máltíð þessa hátíðardaga,“ segir viðmælandi fyrir norðan sem ekki vill koma fram undir nafni.

Hádegismaturinn sem aldraðir, einstæðir og sjúkir fengu heimsendan á Húsavík á aðfangadag um jól og áramót. Mynd aðsend
Mynd/Aðsend

Frímann Sveinsson matreiðslumaður á Sjúkrahúsinu á Húsavík bendir á að um ræði hádegismat. Innan veggja sjúkrahússins hafi verið boðið upp á hamborgarhrygg og hangikjöt í kvöldmat um hátíðirnar, sérrýfrómas, malt og appelsín.

„Eldhús Sjúkrahússins á Húsavík er fyrst og fremst hugsað fyrir inniliggjandi sjúklinga en við bjóðum fleirum upp á heimsendingu á hádegismat. Ef menn eru ósáttir geta þeir afþakkað,“ segir Frímann og bendir á að matseðillinn sé auglýstur margar vikur fram í tímann.

„Það er aðeins tvisvar á ári sem við erum með graut og slátur í hádeginu. Það er á aðfangadag og gamlársdag, alla aðra daga er tvíréttað,“ bætir hann við.

Yfirdrifið nóg

Hann segir að grautur og slátur dugi vel öldruðum í hádeginu.

„Þetta er yfirdrifið nóg fyrir 70 ára og eldri að fá svona. Mér finnst þetta mál vera stormur í vatnsglasi. Menn mega auðvitað hafa misjafnar skoðanir, en innan veggja sjúkrahússins er mikil ánægja með þennan hádegismat,“ segir Frímann.

Það sem skýrir óánægju sumra viðtakenda máltíðanna er að þeir aðilar sem sjá um útkeyrslu matarins frá sjúkrahúsinu bjóða aðeins upp á heimsendingu í hádeginu, ekki á kvöldin. Því hafi jólagrauturinn, sem þó var með kanel og rúsínum, vart verið upp "í nös á ketti" eins og viðmælandi orðar það fyrir þá sem ekki áttu kost á frekari heimsendum mat frá spítalanum þessa daga.

„Ég er búinn að vera kokkur hér í sautján ár og er löngu kominn með skráp. Ég veit hvenær við bjóðum upp á góðan mat og hvenær ekki. Ef ég hefði sent út viðbrenndan graut hefði það verið annað. Það verður aftur heitur grjónagrautur að ári á aðfangadag og gamlársdag,“ segir Frímann ótrauður.

Óánægja er meðal sumra Húsvíkinga með heimsendan mat sem Heilbrigðisstofnun Norðurlands sendi.
Mynd/Aðsend