Hussein Hussein lýsti slæmri líkamlegri og andlegri heilsu sinni og slæmum aðstæðum í Grikklandi fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.
Hussein sagði að sér liði mjög illa, hann gæti ekki sofið né borðað. Hann gráti mikið og sé með líkamlega og andlega verki.
Mál hóps umsækjenda um vernd hér á landi sem voru handtekin og flutt til Grikklands í skjóli nætur fyrr í mánuðinum hefur verið mikið til umræðu og harðlega gagnrýnt. Í hópnum var Hussein sem er fatlaður og notast við hjólastól. Aðalmeðferð í máli hans gegn íslenska ríkinu fór fram í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag en hann fékk ekki að bera vitni á Íslandi og þurfti því að gera það í gegnum fjarfundarbúnað frá Grikklandi.
Aðspurður um móttökur grísku lögreglunnar þegar hann lenti í Grikklandi sagði Hussein aðstæðurnar ekki hafa verið góðar. Salerni hafi verið mjög skítugt og hann hafi verið skjálfandi úr hræðslu.
Þá lýsti Hussein því hvernig lögreglan vísaði fjölskyldunni á götuna þegar hún spurði um gistingu.
Á vef mbl.is segir að Hussein hafi tjáð dómnum að hann hafi ekki fengið neina læknisþjónustu í Grikklandi frá komu sinni þangað. Hann hafi reynt að komast inn á spítala en að honum hafi verið vísað á dyr.
Claudia Ashanie Wilson, lögmaður Hussein, spurði hvað hann óttaðist við að vera áfram í Grikklandi yrði það niðurstaðan. „Ég er svo hræddur við að það ef dómarinn ætlar ekki að hjálpa okkur að koma aftur til Íslands. Hér á Grikklandi líður mér mjög illa því það er engin heilbrigðisþjónusta, engin aðstoð með húsnæði né fjárhagsþjónustu,“ svaraði Hussein fyrir dómi í morgun.