Húsnæðisverð hefur hækkað mest í Vestur-Evrópu hér á Íslandi undanfarin fimm ár. Nemur hækkunin tæpum 58 prósentum frá árinu 2015 til 2020. Á öllu Evrópusvæðinu er Ísland í þriðja sæti, á eftir Ungverjalandi og Tyrklandi. Þetta kemur fram hjá Eurostat, tölfræðistofnun Evrópu.

Fréttablaðið hefur í mánuðinum fjallað ítarlega um húsnæðisskortinn á Íslandi, sér í lagi á höfuðborgarsvæðinu, og það háa verðlag sem fylgir. Þróun húsnæðisverðs á Íslandi sker sig mjög frá hinum Norðurlöndunum samkvæmt Eurostat, sem notar árið 2015 sem núllpunkt í útreikningum sínum. Hækkunin í Danmörku, Svíþjóð og Noregi er á bilinu 22 til 25 prósent sem er aðeins undir Evrópumeðaltalinu, 26 prósent. Í Finnlandi er hækkunin á húsnæðisverði aðeins 6 prósent á fimm árum.

Öfgarnar á Íslandi sjást einnig á árunum fyrir 2015, en á árunum 2010 til 2015 hækkaði húsnæðisverð um 28 prósent á Íslandi. Aðeins í Tyrklandi og Eistlandi hækkaði verðið meira á þessum árum. Á liðnum áratug er Tyrkland eina landið sem er með meiri heildarhækkun en Ísland.

Húsnæðisverð á Íslandi tók risastökk árið 2017, um 21 prósent, og gera má ráð fyrir mikilli hækkun á árinu 2021 einnig. En þær tölur liggja ekki fyrir hjá Eurostat.

Af stórþjóðum hefur verð hækkað um 39 prósent í Þýskalandi, 35 í Póllandi, 27 á Spáni, 17 í Frakklandi og 0,5 á Ítalíu þar sem hækkunin er minnst í álfunni undanfarin fimm ár. Á tíu ára tímabili hefur húsnæðisverð á Spáni reyndar lækkað, því að hrun varð þar árin 2012 og 2013.