Ekkert sveitarfélag hefur undirritað rammasamning um málefni flóttafólks sem félags- og vinnumarksráðuneytið og Samband íslenskra sveitarfélaga skrifuðu undir í sumar.

Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður Sambandsins, segir tvennt standa út af í þeim efnum, húsnæðismál og þjónusta við börn. Sveitarfélög eigi erfitt með að ábyrgjast húsnæði fyrir þúsundir nýrra íbúa á skömmum tíma og fjármuni vanti til að standa undir þjónustu við börn.

Þetta er meðal þess sem kom fram í setningarræðu Heiðu Bjargar á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga sem hófst í morgun.

Heiða Björg segir sveitarfélög standa frammi fyrir hrópandi óvissu um fjármögnun þjónustu og verkefna. Fjárhagsstaða sveitarfélaga hafi aldrei verið jafn alvarleg og nú.

„Stjórn sambandsins kallar því eftir því að fulltrúar ríkisins viðurkenni að sú þjónusta sem ríki og sveitarfélög veita íbúum þessa lands sameiginlega eigi að fjármagna á sanngjarnan hátt,“ sagði Heiða Björg meðal annars í ræðu sinni í morgun.

Að sögn Heiðu Bjargar er félags- og vinnumarkaðsráðherra að skoða hvernig hægt sé að taka sameiginlega ábyrgð á húsnæðisliðnum en síðastliðinn mánudag kynnti mennta- og barnamálaráðuneytið stuðning vegna barna fyrir skólaárið 2022 til 2023.

Heiða Björg segist vonast til þess að lausn verði fundin og segist bjartsýn. Ísland geti ekki látið hundruð fólks bíða í fjöldahjálparstöðvum eða horfa upp á börn án skólavistar.