Flestir borgarbúar nefna húsnæðis- og lóðamál sem mikilvægustu málin fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar. Þetta kemur fram í nýrri skoðanakönnun Prósents. Þátttakendur gátu hakað við allt að þrjá möguleika og nefndu 42 prósent þeirra sem tóku afstöðu þennan málaflokk.

Næstflestir, 30 prósent, nefndu velferðar-og heilbrigðisþjónustu, 28 prósent almenningssamgöngur, 20 prósent skipulagsmál, 19 prósent umhverfismál, 18 prósent vegamál bifreiða, fjármál borgarinnar, skólastarf og leikskólastarf og 15 prósent málefni eldri borgara.

Innan við 10 prósent nefndu aðra málaflokka, svo sem skatta, atvinnusköpun, mannréttindi, íþrótta- og æskulýðsmál og málefni ungs fólks.

Nokkur munur var eftir kynjum hvar áherslunar liggja. Konur leggja mesta áherslu á velferðar- og heilbrigðismál, 41 prósent, en aðeins 20 prósent karla. Umhverfismál, skólamál og leikskólamál eru þeim einnig töluvert ofar í huga en körlunum. 23 prósent karla leggja áherslu á fjármálin en aðeins 13 prósent kvenna. Almenningssamgöngur, vegamál og skipulagsmál eru þeim einnig mun ofar í huga en konunum.

Flestir 65 ára og eldri telja málefni aldraðra þau mikilvægustu. Það gerir enginn í aldurshópnum 18 til 24 ára. 20 prósent þeirra nefna málefni ungs fólks og 41 prósent umhverfismálin, sem er tvöfalt meira en í öllum öðrum aldurshópum. Húsnæðis- og lóðamál skipta alla aldurshópa nokkuð jöfnu máli, 35 til 46 prósent.

Íbúar í eldri hverfum borgarinnar leggja meiri áherslu á almenningssamgöngur, mest í Vesturbænum 43 prósent. Á bilinu 18 til 23 prósent íbúa í efri byggðum nefna þær. Vegamál bifreiða skipta þá meira máli, mest í Grafarvogi 29 prósent.

Mannréttindi og umhverfismál skipta þá tekjulægstu, með 400 þúsund krónur á mánuði eða minna, miklu máli, 29 og 18 prósent. Þeir sem hafa 800 þúsund eða meira er meira umhugað um fjárhag borgarinnar og skipulagsmál, 23 og 27 prósent.

Meirihluti Samfylkingarfólks, 51 prósent, nefnir almenningssamgöngur sem mikilvægt mál og stór hluti stuðningsfólks Vinstri grænna, Viðreisnar og Pírata einnig. Vinstri græn leggja mesta áherslu á umhverfismál, 41 prósent, og stuðningsfólk Pírata og Viðreisnar hefur mestan áhuga á vegamálum gangandi og hjólandi fólks, 16 prósent. 49 prósent Sjálfstæðismanna nefna fjármál borgarinnar sem mikilvægt mál.

Velferðar- og heilbrigðisþjónusta fær langmesta vægið hjá kjósendum Sósíalistaflokksins, 54 prósent, og Sósíalistum er einnig mest umhugað um málefni eldri borgara, 27 prósent. Málefni ungs fólks hafa mest vægi hjá kjósendum Flokks fólksins, 12 prósent. Kjósendur Miðflokksins hafa sérstöðu þegar kemur að vegamálum bifreiða, 72 prósent telja það meðal þess mikilvægasta.

Könnunin var netkönnun, gerð dagana 13. til 26. apríl. Úrtakið var 1800 einstaklingar og svarhlutfallið 53 prósent.