Hús­leit á heimili Donalds Trump fyrr­verandi for­seta Banda­ríkjanna síðast­liðinn mánu­dag er liður í rann­sókn banda­rísku al­ríkis­lög­reglunnar sem lítur meðal annars að brotum á njósna­lög­gjöf landsins (e. Espiona­ge Act) sem bannar af­hendingu gagna sem varða þjóðar­öryggi og geta skaðað Banda­ríkin eða gagnast er­lendum ó­vinum ríkisins.

Banda­ríska dag­blaðið New York Times greinir frá þessu og vísar í hús­leitar­heimild al­ríkis­lög­reglunnar.

Meðal gagna sem hald­lögð voru í hús­leitinni eru gögn merkt ríkis­leyndar­mál, sem ein­göngu má skoða á öruggum vett­vangi opin­berra stofnanna.

Fyrr í dag greindi Wall Street Journal frá því að í hús­leitinni hafi verið lagt hald á um tuttugu kassa af skjölum, hand­skrifuðum bréfum, þar á meðal náðunar­bréf Trump fyrir Roger Stone og upp­lýsingar um Emmanuel Macron, for­seta Frakk­lands.

Sam­kvæmt frétt Walls Street Journal voru skjölin í ellefu flokkum. Sum skjölin voru það há­leyni­leg að einungis væri hægt að skoða þau í sér­stökum gagna­her­bergjum sem banda­ríska al­ríkið býr yfir.

Í gær var greint frá því að full­trúar al­ríkis­lög­reglunnar hefðu leitað skjala sem varða kjarn­orku­vopn.

Fyrr í vikunni var greint frá því að hús­­leitin tengdist opin­berum skjölum úr for­­seta­­tíð Trumps sem hann hafði tekið heim til sín úr Hvíta húsinu í leyfis­­leysi.