Guðmundur Hrafn Arngrímsson, formaður Samtaka leigjenda, sem safnað hefur gögnum á síðustu mánuðum um leigumarkað segir að í ljós hafi komið óeðlileg fylgni milli hækkunar fasteignaverðs og leiguverðs hér miðað við það sem gerist í Evrópu, sé litið á þróun leiguverðs síðustu tíu ár.

Guðmundur kveðst hafa skoðað allar hreyfingar á íslenskum leigumarkaði síðustu tíu árin, samfylgni milli leiguverðs og hækkandi fasteignaverðs, og borið þær saman við tölur frá Eurostat, tölfræðistofnun ESB, sem sýna þróun á fasteignaverði og leiguverði í Evrópu.

„Húsaleiga hækkaði til dæmis um 104 prósent á Íslandi á árabilinu 2011 til 2021, á meðan húsaleiga á meginlandi Evrópu hækkaði um einungis 15 prósent,“ segir Guðmundur. Hvergi í Evrópu sé hækkandi fasteignaverði hellt með álíka krafti út í leiguverð eins og hér.

„Það gefur okkur tilefni til að áætla að hér hafi í rauninni verið mjög ósanngjörn og óréttlát verðmyndun á leigumarkaði. Leigjendur í Reykjavík búa í raun við eina verstu stöðu sem fyrirfinnst í Evrópu,“ segir Guðmundur.

Því sé engin innistæða fyrir orðræðu hjá Samtökum atvinnulífsins, um fyrirsjáanlegar hækkanir á húsaleigu samhliða hærra fasteignaverði.

„Það er deginum ljósara að það er hvorki réttlæting né innistæða fyrir því að núverandi fasteignaverð verði viðmið fyrir þessum hækkunum. Húsaleiga hefur hækkað óeðlilega mikið á Íslandi, fram að þeim tíma sem áhrif Covid-19 hafði á framboð húsnæðis á almennum leigumarkaði, sem sló tímabundið á verðþróunina,“ segir Guðmundur.

Mynd/Vilhelm

Áform um leiguþak urðu að engu

Því telur Guðmundur fullt tilefni til leiðréttingar á leiguverði. „Það kemur til með því að haldið verði aftur af öllum hækkunum og sett verði umgjörð um verðmyndun á leigumarkaði með ákveðnu leiguþaki.“ Verkalýðshreyfingin hafi kallað eftir slíku leiguþaki í sjö mánuði án þess að fá undirtektir.

„Í lífskjarasamningnum 2019 knúði verkalýðshreyfingin fram loforð frá stjórnvöldum og viðsemjendum sínum um verðstýringu á leigumarkaði. Þáverandi félagsmálaráðherra, Ásmundur Einar Daðason, lagði fram frumvarp í febrúar 2020 um leigubremsu. Það frumvarp var hins vegar afturkallað,“ segir Guðmundur.

Í samningi milli stéttarfélaganna og ríkisins hafi þetta loforð verið fellt út. „Það er búið að setja frumvarpið aftur inn en sleppa verðstýringunni,“ segir Guðmundur sem kallar eftir því að stjórnvöld standi við gefin loforð og að ákvæði húsaleigulaga um sanngjarna og réttláta leigu sé virt.

„Ástandið á leigumarkaði er heimatilbúið og á ábyrgð stjórnvalda. Það er því þeirra að tryggja að þeir sem búa við það ástand að vera fastir á leigumarkaði og bítast um sífellt færri fasteignir séu varðir fyrir sjálfdæmi og sjálftöku leigusalanna.“