Nýjustu mælingar sýna að mygla fannst í húsnæði sem Kópavogsbær leigir af fyrirtækinu Árkór ehf. Núverandi hlutverk húsnæðisins er hýsing dagvistunar úrræðis fyrir fötluð ungmenni á menntaskólastigi.

Mælingarnar sem um ræðir voru framkvæmdar af Sýni ehf. þann 19. ágúst síðastliðinn og var loftsýna­skálum komið fyrir á fimm stöðum víðs vegar um húsið.

Ekki fannst mygla í sjálfum stofunum sem notaðar eru en þó fundust ummerki myglu á öðru svæði á sömu hæð. Er það svæði skilgreint sem 1. hæð stigi norðvestur en aðeins einar dyr liggja á milli þess svæðis þar sem skólastofurnar standa og svæðisins þar sem myglan mældist.

Kolbeinn Reginsson, líffræðingur og bæjarfulltrúi Vina Kópavogsbæjar, segir að með þessu sé verið að taka óþarfa áhættu, enda geti sveppur borist á milli staða í húsinu með margvíslegum hætti.

„Ef gró komast með einhverju móti inn í húsnæðið þá lifa þau jafnvel árum saman og um leið og þau komast í vatn þá spíra þau,“ segir Kolbeinn en hann hefur kallað eftir útskýringum á því hvers vegna húsnæðið sé í notkun þegar mælst hafi mygla í einhverju magni á sömu hæð og er nú í notkun. „Bæjaryfirvöld í Kópavogsbæ virðast telja að hér sé um ásættanlega áhættu að ræða,“ segir Kolbeinn.

„Svona sveppagróður getur ferðast tugi kílómetra í lofti, þetta er svo harðgert,“ segir Kolbeinn og bætir við: „Segjum að ef einhver labbar þarna inn fyrir slysni, þá geta gróin sogast yfir í önnur svæði í húsinu. Þetta getur verið undir skósólanum þínum,“ segir hann.

Kolbeinn telur að frekari mælinga sé þörf og tekur fram að ástæða þess að ekki mælist gró í þeim stofum sem notaðar séu í úrræðinu sé að það tiltekna svæði hússins hafi nýlega verið tekið í gegn. Ekki hafi þó verið framkvæmdar viðlíka endurbætur á öðrum hæðum hússins. Samkvæmt mælingum frá 2019, sem unnar voru af Verkís, fannst talsvert af myglu á þeim hæðum húsnæðisins. Því sé líklegt að myglu sé enn að finna þar í miklum mæli.

Í svörum Kópavogsbæjar við fyrirspurn Fréttablaðsins kemur fram að núverandi ástandsskráning Fannborgar 2 sé að húsið sé skráð fokhelt. Kaupandi hafi beðið um að húsið yrði skráð sem slíkt og Kópavogsbær hafi ekki gert athugasemd við beiðni eigenda um þá skráningu vegna þess að efri tvær hæðirnar, af fjórum, væru ekki hæfar til notkunar.

Kópavogsbær tekur fram að Heilbrigðiseftirlitið hafi verið kallað til áður en starfsleyfi var veitt fyrir úrræðinu. Heilbrigðiseftirlitið hafi framkvæmt sjónmat á húsnæðinu ásamt rakamælingu. Farið hafi verið að tilmælum Heilbrigðiseftirlits og húsnæðið þrifið, málað og loftræstikerfi hússins yfirfarið. Þessi úrræði hafi þó einungis farið fram á fyrstu hæð hússins.

Í svörum Kópavogsbæjar kemur fram að enginn umgangur sé í húsinu og að efri hæðir húsnæðisins séu ekki í notkun. Með þessum aðgerðum og viðurlögum telur Kópavogsbær jarðhæð Fannborgar 2 í góðu ástandi og að hægt sé að nýta hæðina í áðurnefnd úrræði.