Gera má ráð fyrir því að framkvæmdir við Hús íslenskunnar, áður nefnt Hús íslenskra fræða, hefjist að öllu óbreyttu í vetur. Stefnt er að verklokum í október árið 2021. Í síðasta mánuði voru tíu ár frá því að niðurstöður úr samkeppni um byggingu hússins voru kynntar almenningi.

Sjá einnig: Hús íslenskra fræða bíður á borði stjórnvalda

Verkið boðið út 2013 en fór langt fram úr kostnaðaráætlun

Lengi hafa verið áform um að byggja sérstakt húsnæði fyrir íslensk fræði. Frá uppahafi stóð til að húsið yrði hið glæsilegasta og myndi varðveita þau íslensku handrit sem skilað var frá Danmörku. 

Efnahagshrunið, sem varð stuttu eftir að áform um byggingu hússins voru kynntar, setti þó strik í reikninginn og bygging hússins hefur flækst um skrifborð stjórnvalda í rúm tíu ár. 

Árið 2013 var verkið fyrst boðið út og grafin var gríðarstór hola undir herlegheitin. Stuttu síðar var verkefnið sett á ís þar sem tilboð voru yfir kostnaðaráætlun ríkisins.

Löng meðganga á borði stjórnvalda

Hús íslenskunnar hefur verið getið í tveimur síðustu fjárlagafrumvörpum og nú virðist vera komin hreyfing á málið. 

Á kynningu fjárlagafrumvarpsins fyrir árið 2019 minntist Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, á byggingu hússins: „Þetta hefur verið langur fæðingartími fyrir Hús íslenskunnar sem nú fer að rísa,“ sagði hann. 

Greint var frá því fyrir rúmum mánuði að verkefninu væri lokið af hálfu Framkvæmdarsýslu ríkisins og lægi nú á borði stjórnvalda. Framkvæmdasýsla ríkisins hafði þá séð um að rýna og uppfæra verkið, en það er undir stjórnvöldum komið að bjóða verkið út á nýjan leik. 

Verkið boðið út í október eða nóvember

Samkvæmt upplýsingum frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu er verkið nú tilbúið til útboðs og fjármögnun þess tryggð. Gera má því ráð fyrir því að það verði boðið út í október eða nóvember. 

Hús íslenskunnar mun hýsa fjölbreytta starfsemi. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Íslensku- og mennigardeild Háskóla Íslands. Þar verður miðstöð rannsókna og kennslu í íslenskum fræðum og varðveitt frumgögn um íslenska menningu, handrit, skjöl, orða- og málfræðisöfn og þjóðfræðasöfn. Byggingin verður þrjár hæðir og kjallari og um 6500 fermetrar auk bílakjallara.