Í dag eru tíu ár frá því að niðurstöður úr samkeppni um byggingu Húss íslenskra fræða voru kynntar almenningi. Til stóð að húsið yrði hið glæsilegasta, með bílakjallara og myndi varðveita þau íslensku handrit sem skilað var frá Danmörku. 

Verkefnið var hins vegar sett á ís árið 2013 þar sem tilboð voru yfir kostnaðaráætlun ríkisins. Fréttablaðið greindi frá því árið 2012 að áætlaður byggingarkostnaður nýja háskólahússins væru ríflegir þrír milljarðar króna og til stæði að ríkið legði til 2.4 milljarða. Afgangur kæmi úr sjóðum Happadrættis Háskóla Íslands. 

Svæðið hefur síðan þá safnað litlu öðru en vatni og gróðri. Holan sem stendur við Suðurgötu hefur í daglegu tali fengið nafnið „Hola íslenskra fræða“ og gæti eflaust verið hin besta sundlaug á góðum sumardegi. Gróður hefur byrjað að spretta í holunni sem frýs gjarnan yfir háveturinn og gæti því einnig þjónað hlutverki skautasvells.

Heildarkostnaður í fjármálaáætlun um 4.2 milljarðar króna

Hreyfing virðist þó vera komin á málið, rúmum áratug síðar, en byggingarfulltrúinn í Reykjavík gaf í ágúst í fyrra Framkvæmdasýslu ríkisins byggingarleyfi vegna hússins og hefur málið verið á borði þeirra síðan. 

Í fjármálaáætlun ríkisins fyrir 2017 - 2021 var einnig fjallað um húsið þar sem meðal annars kemur fram að gert verði ráð fyrir því að framkvæmdir hefjist á tímabilinu. 

Þá kemur fram að búið sé að byggja Hús íslenskra fræða inn í útgjaldaramma málefnasviðsins til ljúka við framkvæmdina og gert sé ráð fyrir að heildarkostnaður við hana áætlaður 4.2 milljarðar króna, þar af eigi eftir falla til 3.7 milljarðar króna á áætlunartímabilinu

Málinu lokið af hálfu Framkvæmdarsýslu ríkisins

Þrátt fyrir að verkefnið sé komið á skrið stendur enn skilti við afgirta holuna þar sem á stendur að áætluð verklok séu 2016, eða fyrir tveimur árum.

Guðrún Ingvarsdóttir, forstjóri Framkvæmdarsýslu ríkisins, segir í samtali við Fréttablaðið að málinu sé lokið af þeirra hálfu og hönnunar og útboðsgögn liggi fyrir. Eins og stendur eru áætluð verklok árið 2021 og það sé í höndum Háskóla Íslands og Árnastofnunar að skipta út hinu úrelta skilti.

„Í fyrra var farið í endurskoðun á vissum þáttum meðal annars til þess að auka hagkvæmni. Það höfðu orðið breytingar á byggingarreglugerð í millitíðinni sem þurfti að uppfæra gögn út frá og sú vinna stóð yfir í vetur. Seinni hluta vors hefur verkefnið verið í rýni og pakkinn er í rauninni tilbúinn og liggur uppi í ráðuneyti,“ segir Guðrún. „Þetta er vonandi bara á loka sprettinum.“

Stefnt að því að framkvæmdir hefjist í ár

Málið er því að sögn Guðrúnar í höndum Menntamálaráðuneytisins og Fjármálaráðuneytisins að svo stöddu.

Má gera ráð fyrir að framkvæmdir hefjist á þessu ári?

„Já það hefur verið stefnan. Ég get í rauninni ekki staðfest það fyrr en ráðuneytin tvö hafa afgreitt málið,“ segir Guðrún. 

Þegar þeirri afgreiðslu er lokið fer verkefnið fyrir samstarfsnefnd um opinberar framkvæmdir sem að veitir heimild til þess að bjóða verkefnið út. 

„Þá erum við bara tilbúin með gögnin um leið og græna ljósið kemur frá þeim. Þá verður valinn verktaki og vonandi er þetta innan heimildar svo hægt sé að ýta þessu í gang.“

Ekki í hendi fyrr en stjórnvöld hafa afgreitt málið

Að sögn Guðrúnar er hins vegar erfitt að segja til um heildarkostnað við byggingu hússins þar sem búið er að fara í uppfærslu á vissum þáttum í byggingu hússins, en líkt og fyrr segir er gert ráð fyrir í fjármálaáætlun ríkisins að heildarkostnaður sé um 4.2 milljaðrar króna. 

Aðspurð segir Guðrún það vera það vissulega vera fagnaðarefni ef verkefnið kemst loks á skrið en ítrekar þó að ekkert sé hægt að staðfesta fyrr en ráðuneytin tvö hafa afgreitt málið.

„Þetta er aldrei í hendi fyrr en stjórnvöld afgreiða málið. Þetta er farið frá okkur og nú bíður þetta bara umfjöllunar í ráðuneytunum.“