„Því miður þá hefur umræðan um smáhúsin litast af nokkrum fordómum og haft áhrif á framgang verkefnisins,“ segir Regína Ásvaldsdóttir, sviðsstjóri velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, sem bíður þess að geta tekið tíu smáhýsi fyrir heimilislausa í notkun.

Að sögn Hólmfríðar Helgu Sigurðardóttur, upplýsingafulltrúa hjá Reykjavíkurborg, voru umrædd smáhýsi flutt á geymslusvæði Reykjavíkurborgar í Skerjafirði í mars 2020, eða fyrir meira en einu og hálfu ári.

Aðspurð svarar Hólmfríður því játandi að andstaða íbúa í einstökum hverfum hafi tafið fyrir því að húsin komist í notkun

„Erfiðlega hefur gengið að festa lóðir fyrir þau en umhverfis- og skipulagssvið hefur unnið að því í meira en tvö ár. Það hefur gengið hægar en vonir stóðu til um, meðal annars vegna andstöðu íbúa og fyrirtækja í mörgum hverfum,“ segir hún.

Ráðgert er að fimm húsanna verði flutt í Laugardal, tvö á Héðinsgötu og þrjú á Stórhöfða.

„Stefnt er að því að setja húsin upp um leið og lóðirnar undir þau eru tilbúnar,“ segir Hólmfríður. Ekki sé ljóst hversu miklar framkvæmdir verði hægt að fara í áður en vetur bresti á. „En verkefnið ætti að klárast á árinu 2022.“

Regína Ásvaldsdóttir, sviðsstjóri velferðarsviðs Reykjavíkurborgar.

Fimm hús hafa þegar verið tekin í notkun í Gufunesi. Tvö hús eru að sögn Hólmfríðar komin í Skógarhlíð og þrjú á Kleppsmýrarveg og unnið er við frágang þeirra.

Sem fyrr segir kveður sviðsstjóri velferðarasviðs verkefnið hafa tafist vegna fordóma sem litað hafi umræðuna um smáhýsin.

„Við verðum því að fá svigrúm til að þróa þetta í rólegheitunum og megum aldrei gleyma því að þarna er um heimili fólks að ræða sem vill búa í sem mestri sátt við umhverfið,“ segir Regína Ásvaldsdóttir, aðspurð hvort tafirnar hafi sett áætlanir velferðarsviðs vegna þessa hóps úr skorðum.

Hólmfríður útskýrir að smáhúsin séu heimili fólks. Íbúarnir fái daglega heimsókn frá Vettvangs- og ráðgjafarteymi velferðarsviðs.

„Þjónusta teymisins byggir á hugmyndafræði Húsnæði fyrst sem snýst um að allt fólk eigi rétt á húsnæði og geti haldið því með einstaklingsbundinni þjónustu undir formerkjum skaðaminnkunar."