Bæjarstjórn Ísafjarðar mun styrkja þau hús á Flateyri sem eru í mestri snjóflóðahættu í sumar. Er þetta hluti af aðgerðaáætlun sem ráðist var í vegna snjóflóðanna í janúar árið 2020.

Verður meðal annars komið fyrir skotheldu gleri fyrir gluggaop til að snjór komist ekki inn og styrktum hurðum, veggjum og lofti ef þarf. Alls er um átta hús að ræða, við Ólafstún, Goðatún og Hjallaveg. Lagt er til að valin verði þrjú hús til að byrja með og er heildarkostnaðurinn 25 milljónir króna.

Snjóflóðavarnirnar sjálfar verða einnig bættar. Komið verður upp snjóflóðagrindum á Eyrarfjalli til þess að draga úr snjósöfnun. Sambærilegar grindur eru til dæmis til á Patreksfirði.

Þá verður land grafið upp og mótað handan núverandi varnargarða og jarðvegsrannsóknir framkvæmdar á hafnarsvæðinu. Í fyrra flæddi inn í höfnina og fjölmargir smábátar skemmdust eða gjöreyðilögðust. Kostnaðurinn við grindurnar er metinn 150 milljónir króna og landmótunina 150 til 180 milljónir.