Sveitarstjórn Borgarbyggðar óskaði aldrei eftir lögbundinni úttekt á húsum í Brákarey síðustu 10 ár þrátt fyrir ítrekaðar ábendingar frá slökkviliðsstjóra. Nær öllum húsum á eyjunni var lokað í febrúar og neyddust þá félög sem þar voru til húsa til að hætta starfsemi sinni.

Fulltrúar félaganna í Brákarey hafa gagnrýnt ákvörðun sveitarfélagsins og sagt lítið sem ekkert samráð hafa verið við á milli leigjenda og sveitarfélagsins. Félög sem höfðu aðstöðu í Brákarey voru Skotfélagið, Golfklúbburinn, Fornbílafélagið, Bifhjólafélagið og Pútthópurinn. Einnig voru nokkrir einstaklingar með vinnuaðstöðu.

Samkvæmt lögum um brunavarnir er eldvarnaeftirliti sveitarfélaga skylt að framkvæmda öryggisúttektir í samvinnu við byggingafulltrúa.

Sveitarstjóri Borgarbyggðar segir í svari við fyrirspurn Fréttablaðsins að engar úttektir voru gerðar á húsum í Brákarey af hálfu slökkviliðsins síðustu 10 árin, að frátalinni þeirri sem leiddi til lokunar.

Reyndi ítrekað að vekja athygli á málinu

Slökkviliðsstjóri reyndi ítrekað að vekja athygli ráðamanna Borgarbyggðar á því að húsnæðið uppfyllti ekki öryggiskröfur fyrir þá margþættu starfsemi sem væri þar. Nauðsynlegt væri að brunahanna húsnæðið með tilliti til starfseminnar. Slökkviliðsstjóri sendi ábendingar árin 2012, 2013 og 2014.

„Slökkviliðsstjóri ítrekar við byggðarráð Borgarbyggðar áður sendar áhyggjur sínar varðandi brunahólfun og brunamótstöðu í húsum sveitarfélagsins í Brákarey og vill benda byggðarráði á þær skyldur er hvíla lögum samkvæmt á húseigendum og umráðamönnum varðandi brunahólfun og brunamótstöðu húsnæðis,“ segir í bréfi Bjarna K. Þorsteinssonar slökkviliðsstjóra til Björns Bjarka Þorsteinssonar, formanns Byggðarráðs Borgarbyggðar frá árinu 2013.

„Að óbreyttu ástandi hefur slökkviliðið ekki að nógu slökkvivatni úr dreifikerfi Orkuveitu Reykjavíkur að hverfa ef verulegur eldur yrði laus í áðurnefndum húsum.“

Sláturhúsið í Brákarey.

Í greinargerð slökkviliðsins varðandi öryggis- og eldvarnaúttektir í húsum Borgarbyggðar í Brákarey frá því í mars 2021 kemur fram að stjórnendur Borgarbyggðar hafi hleypt margs konar starfsemi inn í húsin án þess að leita eftir formlegu samþykki eldvarnaeftirlits slökkviliðs.

Bjarni slökkviliðsstjóri gerði sveitarfélaginu ljóst að hólfun í húsnæðinu væri ekki fullnægjandi í bréfi til Kolfinnu Jóhannesdóttur, sveitarstjóra árið 2014. Hann ítrekaði áhyggjur sínar sama ár í bréfi til Jökuls Helgasonar, þáverandi forstöðumann umhverfis- og skipulagssvið.

„Ég hef lengi haft miklar áhyggjur af bruna- og sambruna hættu þessara húsa og hef ítrekað kallað eftir því við Byggðarráð Borgarbyggðar að sveitarfélagið marki sér skýra stefnu varðandi framtíðar nýtingu húsanna til langframa og endurbætur og brunavarnir þeirra taki þá mið af þeirri starfsemi en lengi vel hafði ég ekki árangur sem erfiði af þeim bréfaskriftum og vakti það furðu mína svo ekki verði dýpra í árina tekið,“ segir í bréfi Bjarna til Jökuls.

Lagði hann til að stofna þriggja til fjögurra manna nefnd til að fara ítarlega yfir málin og koma með tillögur um niðurrif húsa og framtíðarstarfsemi.

„Þegar ákvörðun um niðurrif hefur verið tekin er að framfylgja henni til loka að öðrum kosti verður hér um eilífðar vandamál að ræða okkur öllum til skammar,“ sagði Bjarni.

Húsum í eigu sveitarfélagsins í Brákarey, sem byggð voru sem frystihús, sláturhús og fjárrétt, var lokað í febrúar síðastliðnum að kröfu eldvarnaeftirlits og byggingafulltrúa.