Íbúar af erlendum uppruna með mestan kvíða í brjósti vegna náttúruhamfaranna á Suðurnesjum. Kona sem hugðist slaka á í heitum potti lenti í óvæntri uppákomu þegar stórskjálftinn skók jörð.

Kona sem hugðist njóta lífsins í heitum potti í Grindavík við heimili sitt á sunnudag segir að stóri jarðskjálftinn, sem skall á Grindvíkingum af miklu offorsi, hafi skapað hvirfilbyl og gusað vatninu upp úr pottinum í miklum strókum. Hún hafi aldrei upplifað annað eins.

Bæjarstjórinn í Grindavík segir að íbúar af erlendum uppruna, um fimmtungur bæjarbúa, séu hræddastir við áhrif jarðskjálftanna og tilvonandi eldgos.

„Við ætluðum að slappa af fyrir gestakomu og þá kom eins og hvirfilvindur ofan í pottinn, það gusaðist vatnið upp úr honum. Á sama tíma bylgjaðist allt húsið til,“ segir Guðbjörg Eyjólfsdóttir, innheimtufulltrúi Grindavíkurbæjar.

„Svo kom vatnsstrókur upp úr pottinum. Við erum með lítinn hund og hann spýttist út á tún. Svo heyrðum við brothljóðin inni.“

Áhrif skjálftans á sunnudag á Grindvíkinga eru þau mestu frá upphafi hræringanna. „Þessi var sá stærsti sem ég hef fundið,“ segir Guðbjörg. Áður en skjálftinn reið yfir hafði hún dekkað upp borð. Hvert einasta staup hrundi af borðinu niður á gólf.

„Mér var mjög brugðið,“ segir Guðbjörg. „Það fer ýmislegt í gegnum huga manns á svona stundu.

Fleiri íbúar urðu fyrir eignatjóni þegar gólf og veggir sprungu. Ýmsir munir brotnuðu eða eyðilögðust. Kalt vatn fór tímabundið af öllu sveitarfélaginu.

Fanney Erlendsdóttir, íbúi í Grindavík, segist ánægð með að hafa í forvarnaskyni bundið fyrir stofuskápana sína fyrir skjálftann. Af þeim sökum hrundi ekkert úr þeim niður á gólf.

„Mér tókst að bjarga kristalnum,“ segir Fanney.

Fanney Erlendsdóttir fagnar því að hafa bundið fyrir stofuskápana. Það hafi bjargaði kristalnum.
Mynd/BjörnÞorláksson

Fannar Jónasson, bæjarstjóri í Grindavík, segir íbúa búa yfir æðruleysi þrátt fyrir lætin og horfurnar. Mestur ótti sé meðal útlendinga sem búa og starfa í Grindavík.

„Íbúar af erlendum uppruna sem eru 18-20 prósent íbúa Grindavíkur, langflestir Pólverjar, hafa ekki alist upp við jarðskjálfta. Helstu heimildir þeirra um jarðskjálfta eru fréttamyndir af fólki, jafnvel líkum, sem dregið er undan múrsteinshrúgu í hamförum.“

Mikil áhersla hefur verið lögð á að fá sérfræðinga til að ræða við fólkið og fræða það um jarðskjálfta.

„Við höfum fengið sálfræðinga, Rauða krossinn og fleiri til að hitta þetta fólk. Við höldum líka úti Facebook-síðu og erum með íslenskumælandi Pólverja sem vinna einnig að þessu brýna verkefni,“ segir Fanna

Fannar Jónasson, bæjarstjóri Grindavíkurbæjar
Mynd/EyþórÁrnason

Að sögn Fannars eru eldri borgarar, börn og fatlaðir einnig ofarlega á lista þeirra sem hafi mestar áhyggjur og fái sérstakan stuðning af hálfu sveitarfélagsins.

Ármann Hösk­ulds­son eld­fjalla­fræðing­ur segir að samkvæmt þeim vísbendingum sem atburðarás síðustu daga og vikna gefi til kynna, séu allar líkur á eldgosi.

„Það eru mjög miklar líkur á því. Þetta hegðar sér mjög svipað og síðast,“ segir Ármann og vísar með því til undanfara eldgossins í Fagradalsfjalli.

Stöðug vöktun er í gangi, enda er hættustig í gildi. Þótt rýmingar­áætlun snúist um að hver íbúi sjái um sig og sína fjölskyldu munu björgunarsveitir verða í lykilhlutverki ef kemur til rýmingar.