Í gær hófust réttar­höld í Noregi í máli konu sem á­kærð hefur verið fyrir mann­dráp af gá­leysi. Rottweil­er-hundur konunnar réðst að eins og hálfs árs gömlum dreng á heimili hennar í fyrra­sumar með þeim af­leiðingum að hann lést.

VG fjallar um þetta.

At­vikið átti sér stað á heimili konunnar í Bru­mund­dal í austur­hluta Noregs í byrjun júní 2021. Drengurinn, ættingi konunnar, var í pössun á heimili hennar þegar hundurinn réðst á hann.

Fyrir dómi lýsti konan því sem gerðist þennan ör­laga­ríka dag. „Það var sól úti og við sváfum til­tölu­lega lengi, sungum og lékum okkur,“ sagði hún en tvö önnur börn voru á heimilinu þennan dag.

Þau fóru öll út að leika og á­kvað konan að bera sólar­vörn á hin tvö börnin. Á sama tíma sá hún drenginn fara inn í húsið og taldi að hann væri að sækja sér ís – eins og hann átti til að gera.

Ekki leið langur tími þar til konan heyrði læti úr húsinu en þá hafði Rottweil­er-hundurinn ráðist á drenginn og bitið hann illa. Hún kveðst hafa slegið til hundsins og sparkað í hann en það hafi litlu máli skipt.

Í stofunni á heimili konunnar var hlið sem átti að vera lokað þannig að Rottweil­er-hundurinn – og annar hundur á heimilinu af tegundinni Golden Retri­e­ver – kæmust ekki út. Hliðið var hins vegar opið þegar slysið varð. Í frétt VG kemur fram að hundurinn hafi verið svæfður sama dag og at­vikið varð.

Konan er á­kærð fyrir mann­dráp af gá­leysi með því að gæta hvorki að barninu né hundinum um­rætt sinn. Hún neitar sök og segist hafa passað drenginn en litið af honum í ör­fáar sekúndur.

Sak­sóknari lýsti því fyrir dómi að áður hefðu komið upp til­vik á heimili konunnar þar sem þessi sami hundur réðst á börn. Árið 2016 var þriggja ára stúlka bitin í and­litið og sama ár var sex ára stúlka bitin af hundinum. Þá komu upp til­vik árin 2018 og 2021, áður en hið hörmu­lega slys varð, þar sem börn voru bitin af hundinum.