Aðkoman var ekki falleg fyrir son Svövu Ástudóttur, íbúa í Vesturbæ Reykjavíkur, þegar hann kom að fjöldamorði á fjölskylduhænunum skömmu eftir hádegi í dag. Eigandi hænsnanna telur hund í nágrenninu hafa verið að verki.

Svava birti færslu í íbúahóp Vesturbæinga þar sem hún lýsir eftir hundinum sem var að verki. „Í dag hringdi sonur minn í mig sturlaður af hræðslu. Hann kom heim eftir skóla í dag til að sinna hænunum sínum [...] og hefur hann verið dugmikill hænsnabóndi ásamt því að systir hans hefur sinnt því að selja eggin til góðra granna,“ skrifar Svava á Facebook.

Hænsnunum hafði verið slátrað hvor af annarri og komst aðeins ein þeirra lífs af og önnur er enn ófundinn. „Það var vægast sagt skelfingar aðkoma sem drengurinn kom að. Það var búið að brjótast inn í heimili hænsnanna og slátra þeim hver af annarri. Ein fannst örend oná eggjunum sínum, önnur bitin í gegn út í horni önnur hafði náð að sleppa út þar sem brotist hafði verið inn og var slátrað á miðri lóðinni með tilheyrandi blóðslettum í snjónum og fiðri útum gjörsamlega allt,“ skrifar Svava áfram.

Í samtali við Fréttablaðið segir Svava að þetta sé sorglegt fyrir fjölskylduna, sem hefur stundað hænsnahald með góðu móti í þrjú og hálft ár. „Þetta hefur gerst upp úr hádegi, þær voru ekki allar orðnar stífar greyin. Þegar við komum að þessu voru hænsnalík, blóð og hundaspor út um allt. Við höfum haldið þessi hænsn í þrjú og hálft ár með mjög farsælu samstarfi í nágrenninu og þær eru ótrúlega skemmtilegar. Ég hefði ekki trúað því að hænur gætu verið svona skemmtilegar svo þetta er mjög sorglegt fyrir okkur,“ segir Svava í samtali við Fréttablaðið.

Svava lýsir eftir hundinum sem var að verki í færslu sinni. „Ég vil lýsa eftir þessum hundi, vitnum að þessu og greyinu sem er einhver staðar þarna úti. Hún er alsvört. Ef hundurinn hefur komið með hana heim með sér vil ég benda eigendum að skila okkur dýrinu lífs eða liðnu svo börnin megi syrgja dýrin sem þau hafa alið undanfarin [...] ár,“ skrifar Svava.

Hún telur líklegt að þarna hafi verið á ferðinni hundur sem áður hafi leikið fjölskylduna grátt. „Hann er hérna einhvers staðar rétt hjá okkur. Hann gerði það að venju sinni að koma og skíta í garðinn hjá okkur um tíma,“ segir Svava. „Ég vonast bara til þess að eigendur stígi fram. Það hvarf ein hæna og ég sé fyrir mér að hundurinn hafi tekið hana með sér.“