„Í gærkvöldi var komið með hund til okkar á Dýraspitalann í Garðabæ og talið er að hann hafi étið fisk sem hafði verið í blandaður frostlegi. Frostlögur er banvænn fyrir öll spendýr.“ Svona hefst viðvörun sem Dýraspítalinn í Garðabæ sendi frá sér fyrir stuttu.

Atvikið átti sér stað við golfvöllinn á Holtinu í Garðabæ og var hundurinn í kjölfarið fárveikur. Ekki er útséð með hvort varanlegur skaði hefur orðið en hann hefur þurft mikla meðhöndlun eftir þetta og virðist vera á batavegi.

„Sá sem gerir svona er fársjúkur einstaklingur og við biðlum til allra að hafa augu og eyru opin varðandi umhverfi sitt og veiti lögreglu og MAST upplýsingar um grunsamlega hegðun sem geti bent til þess að viðkomandi sé viðriðinn þennan glæp. Fylgist vel með því hvað hundarnir ykkar eru að snuðra og kattareigendur ættu að hafa augun hjá sér um grunsamlegt æti sem lagt er út,“ segir einnig í færslunni sem má lesa í heild sinni hér að neðan.