Ó­hugnan­leg sjón blasti við veg­far­endum á miðjum Lauga­vegi um klukkan fimm í dag; þar lá lemstraður hundur í blóði sínu. Í ljós kom að hann hafði fallið niður af svölum á fimmtu hæð.

Jóhann Karl Þóris­son, að­stoðar­yfir­lög­reglu­þjónn lög­reglunnar á höfuð­borgar­svæðinu, segir í sam­tali við Frétta­blaðið að eig­andi hundsins hafi verið við störf í hús­næðinu og tekið hundinn sinn með sér. Hann hafi sett hann út á svalir og síðan ekki vitað af honum fyrr en hann heyrði í ópum neðan af götu.

Þá fer hann út á svalir og sér hvar hundurinn liggur í blóði sínu á götunni fyrir neðan. Jóhann Karl segir að hundurinn hafi dáið eftir fallið. Eftir því sem Frétta­blaðið kemst næst féll hundurinn af svölum við Lauga­veg 18, en þar er rekið hótel.

Ó­ljóst er hvað nákvæmlega varð til þess að hundurinn féll af svölunum. Jóhann Karl segir þó að málið sé bókað sem slys hjá lög­reglunni og að enginn hafi verið hand­tekinn. Enginn sé þannig grunaður um dýra­níð fyrir að hafa hent hundinum niður af svölunum.

Uppfært 07.03.21 kl. 08:30: Upprunalega stóð að hundurinn hefði dáið við fallið. Eftir samtöl við vegfarendur á svæðinu kom í ljós að hann var enn lifandi þegar hann var fluttur af götunni en hefur látist síðar um daginn af sárum sínum.