Ellefu ára stúlka var bitin til blóðs af hundi í vikunni þegar hún var á gangi með hund fjölskyldu sinnar. Kom þá laus hundur aftan að henni og beit í hönd og læri, að sögn lögreglunnar á Suðurnesjum.

Fram kemur í tilkynningu að lögregla hafi rætt við eiganda hundsins og látið Matvælastofnun og Heilbrigðiseftirlitið vita af málinu.

Þá leysti lögregla upp samkomu í bílskúr þar sem ummerki voru um fíkniefnaneyslu. Voru þrír gesta undir lögaldri og framvísaði einn gesta kannabisefni, að sögn lögreglu.

Haft var samband við forráðamenn þeirra sem voru undir lögaldri og tilkynning send til barnaverndarnefndar.

Enn fremur var tilkynnt um þjófnað á nokkrum pokum af dósum sem geymdir voru í porti við söluturn í Grindavík. Ekki er vitað hverjir voru þar að verki.

Þá voru nokkrir ökumenn kærðir fyrir of hraðan akstur í umdæmi lögreglunnar og skráningarnúmer fjarlægð af sex bifreiðum sem reyndust óskoðaðar eða ótryggðar.