Samningur um makaskipti ríkis og borgar á lóð borgarinnar við Kleppsspítala annars vegar og lóð ríkisins við Borgarspítalans hins vegar var undirritaður í gær.

Á 30 þúsund fermetra lóð milli Klepps og Holtagarða verður Björgunarmiðstöð með sameiginlegri aðstöðu fyrir löggæslu- og viðbragðsaðila á höfuðborgarsvæðinu. Þar verða lögreglan, Landhelgisgæslan, Tollgæslan Neyðarlínan, Slysavarnafélagið Landsbjörg og yfirstjórn slökkviliðsins.

Borgin fær á móti 40 þúsund fermetra byggingarlóð í Fossvogi sunnan og austan við lóð Borgarspítalans.

Pawel Bartoszek, formaður skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkur, segir að þar eigi að byggja íbúðir og mögulega einnig hjúkrunarheimili.

„Við sjáum fyrir okkur að fyrstu skref í skipulagsvinnu gætu hafist á þessu ári,“ segir Pawel. Fjöldi íbúanna verði talinn í hundruðum.

„Við myndum horfa á byggð sem væri sambærileg þeirri byggð sem þarna er í kring,“ segir Pawel sem kveðst ekki geta útlistað nánar á þessu stigi hvernig byggðamynstrið nákvæmlega verði. „En við höfum almennan metnað um að reyna að byggja sæmilega þétt,“ ítrekar formaður skipulagsráðs.

Pawel Bartoszek, formaður skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkur.
Fréttablaðið/Anton Brink