„Þar sem Co­vid-19 far­aldurinn hófst fyrir til­tölu­lega skömmum tíma er enn erfitt að segja hver lang­varandi á­hrif veirunnar eru,“ segir Runólfur Páls­son, for­stöðu­maður á lyf­lækninga- og endur­hæfingar­þjónustu Land­spítalans, í sam­tali við Frétta­blaðið. Það sé þó ljóst að mikið af fólki þjáist enn af eftir­köstum sjúk­dómsins.

„Það sem er mest á­berandi af lang­varandi ein­kennunum er orku­leysi,“ segir Runólfur. Einnig ber mikið á missi á bragð- og lyktar­skyni, þrótt­leysi, höfuð­verki, mæði og vöðva­verkjum. „Þetta er mjög á­berandi eftir Co­vid-19, þrátt fyrir að margir nái skjótum bata eftir smit.“

Hundruð Ís­lendinga með þrá­lát ein­kenni

Ekki er hægt að finna neinar tölu­legar upp­lýsingar hversu al­gengt er að hljóta eftir­köst af þessu tagi. „Heilsu­gæslan hefur verið sá staður þar sem þetta fólk hefur verið að sækja sér að­stoð en stöku ein­staklingar hafa komið til okkar á co­vid göngu­deildina í mat og lýst þessum ein­kennum.“

Tals­maður Heilsu­gæslunnar í Reykja­vík sagði að borið hafi á heim­sóknum fyrrum co­vid sjúk­linga en að ekki hafi verið gerð könnun um fjölda slíkra sjúk­linga.

Í fimm hundruð manna Face­book hópnum „Við fengum co­vid“ sögðust rúm­lega hundrað manns upp­lifa þrá­látan slapp­leika og orku­leysi í kjöl­far veikinda sinna og yfir átta­tíu kváðust enn vera með brenglað bragð- og/eða lyktar­skyn.

„Við höfum hitt stöku ein­stak­linga sem eru með þessi lang­vinnu ein­kenni mörgum vikum, jafn­vel mánuðum, eftir að þau veiktust og náðu bata af bráðu ein­kennunum.“ Ekki sé hægt að full­yrða hvort eða hve­nær fólkið muni snúa aftur í sitt fyrra horf.

Að sögn Runólfs eru tilvik þess að fólk glími við langvarandi einkenni covid svo mánuðum skipti.

Al­var­leg veikindi ekki for­senda

Hópurinn skiptist ekki sér­stak­lega upp í þau sem voru al­var­lega veik og þau sem voru með væg ein­kenni. „Það er vitað að al­var­leg lungna­bólga skilur eftir sig vefja­skemmdir sem geta komi niður á starfs­getu lungna og þar af leiðandi þreki og mæði við á­reynslu og annað slíkt en þessi lang­varandi veikindi hafa ekki að­eins lagst á þá sem fengu lungna­bólgu af völdum veirunnar,“ segir Runólfur.

„Það er stór hópur sem veikist ekki al­var­lega og þurfti ekki að leggjast inn á sjúkra­hús en er samt sem áður með lang­varandi ein­kenni.“ Það sé nokkuð ó­venju­legt.

Engin aldurs­hópur undan­skilinn

Aldur virðist heldur ekki ráða því hve lengi fólk er að jafna sig eftir veiruna. „Jafn­vel ungt fólk sem veiktist ekki al­var­lega og virtist sleppa nokkuð vel frá sjúk­dómnum hefur þjáðst svo vikum skipti af eftir­köstum af þessi tagi.“

Runólfur viður­kennir að lækna­vísindin skilji ekki hvað liggi því að baki að sumir veikist al­var­lega en aðrir til­tölu­lega lítið. Það sé lítið annað en tíminn sem leiði í ljós hvort ein­kennin gangi aftur eða hvort hægt sé að finna úr­lausn á veikindunum. „Við þekkjum það af reynslunni að í sumum til­vikum veiru­sýkinga fær fólk lang­dregin ein­kenni, til dæmis eftir in­flúensu, en nær seinna bata.“ Það sama eigi vonandi við í þessu til­viki.

Engin svör eða við­mið að finna

Engin þekkt úr­ræði eru enn í boði sem geta stytt ferlið sem fylgir lang­varandi ein­kennum. „Þetta er mjög hvim­leitt fyrir fólk sem er í vinnu eða er að stunda nám og á erfitt upp­dráttar svo vikum skiptir.“ Sér­stak­lega sé erfitt að finna engin svör í lækna­vísindunum.

Meðal þess sem nú er til rann­sóknar á Land­spítalanum eru lang­tíma af­leiðingar far­aldursins. „Það er verið að skapa þekkingu með vísinda­legum rann­sóknum sem byggja á þeirri reynslu sem við höfum hér.“ Enn sé of snemmt að segja hvað mun koma út úr því. „Far­aldurinn hefur ekki varað svo lengi að við sjáum fyrir endann á þessu enn,“ segir Runólfur.

Á annan tug hefur þurft á endurhæfingu að halda í kjölfar kórónaveirunnar.
Fréttablaðið/Ernir Eyjólfsson

Að heiman í endur­hæfingu

Hluti þeirra sem greindust með veiruna hafa þurft á endur­hæfingu að halda í kjöl­far veikindanna og hefur á annan tug sjúklinga þegar farið í bráða­endur­hæfingu á Reykja­lundi að sögn Magda­lenu Ás­geirs­dóttur, yfir­læknis. Þar af voru fimm sem komu að heiman án þess að hafa lagst inn á spítala.

Fleiri ein­staklingar sem hafa greinst með kóróna­veiruna bíða nú eftir að fá inn­göngu í endur­hæfingu. „Við erum að loka næst­komandi föstu­dag og höfum því ekki tekið inn nýja sjúk­linga síðustu tvær vikurnar,“ segir Magda­lena í sam­tali við Frétta­blaðið.

„Ein­kenni þeirra sem koma í endur­hæfingu er svipuð og hjá fólki sem hefur fengið lungna­bólgu og fjöl­kerfa­sýkingar eða verið svæft og legið hreyfingar­laust lengi.“ Co­vid-19 sé kerfis­lægur sjúk­dómur sem leggst ekki að­eins á lungun heldur einnig heilann, æða­kerfið og hjarta­vöðvann.

Von um fullan bata

Eftir að fólk út­skrifast úr Reykja­lundi heldur það á­fram í endur­hæfingu heima við og ef það jafnar sig ekki liggur leiðin í endur­hæfingu að nýju að sögn Magda­lenu. „Ein­kennin eru svo mis­munandi og vara sum hver í marga mánuði þrátt fyrir að fólk hafi löngu hætt að mælast já­kvætt í prófum.“ Þar tekur hún dæmi um sjúk­ling sem hefur verið með hita­vellu frá því í mars.

„Þetta er náttúru­lega glæ­nýr sjúk­dómur sem lítið er vitað um, sumir hafa engin ein­kenni og aðrir deyja og svo er allt lit­rófið þar á milli.“ Lítið sé vitað um lang­varandi eftir­stöðvar en Magda­lena segist þó hafa séð gríðar­legan bata á skömmum tíma í ein­hverjum til­vikum svo von um fullan bara sé til staðar.